Fréttir eftir árum


Fréttir

Hreyfing er gott meðferðarúrræði

24.10.2014

„Hreyfing sem úrræði við vægum þunglyndis- og kvíðaeinkennum er ekki síðri en sálfræðimeðferð,“ segir Hafrún Kristinsdóttir, sviðsstjóri íþróttafræðisviðs HR í viðtali við fréttastofu RÚV.

Hafrún Kristinsdóttir

Hafrún segir jafnframt að hreyfing sé of lítið notað úrræði í meðferð við þessum einkennum.

Kristín Birna Ólafsdóttir vann að rannsóknum á áhrifum hreyfingar á væg kvíða- og þunglyndiseinkenni í meistaraverkefni sínu við íþróttasvið. Í hennar rannsókn tók hópur sjálfboðaliða þátt í æfingum þrisvar í viku í átta vikur. Þeir svöruðu spurningalistum fyrir meðferðina fyrst eftir fjórar vikur, svo eftir átta vikur og síðast þremur mánuðum eftir lok æfingatímabilsins. Í verkefninu bar Kristín Birna saman áhrif hreyfingar annars vegar og ósértækrar hugrænnar atferlismerðferðar hins vegar á hóp einstaklinga með kvíða eða þunglyndiseinkenni.

Hafrún segir æfingarnar þó þurfa að hafa ákveðna uppbyggingu og að ástundunin þurfi að vera undir handleiðslu þjálfara sem þekki bæði íþróttir og geðraskanir.

Fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á að hreyfing geti verið gagnleg sem hluti af meðferð fyrir einstaklinga sem há baráttu við geðraskanir. Sérfræðingar í heilbrigðiskerfinu hafa mælt með því meðferðarformi í auknum mæli undanfarin ár. Staðfesta niðurstöður Kristínar því enn betur gagnsemi hreyfingar við að vinna á móti einkennum þunglyndis og kvíða. Kristín Birna hóf nýlega störf á geðdeild Landspítalans þar sem hún sér um hreyfingu fyrir fólk í innlögn.

Kristín BirnaKristín Birna Ólafsdóttir

Sjá frétt RÚV hér (hefst á 8. mínútu)