Fréttir eftir árum


Fréttir

Hringdu í alla nemendurna

26.10.2020

Anna S. Bragadóttir tók við starfi forstöðumanns frumgreinadeildar Háskólans í Reykjavík við byrjun haustannar. Innan frumgreinadeildar er kenndur Háskólagrunnur HR sem er undirbúningsnám fyrir háskólanám. Hún segir nemendur bera sig vel á undarlegum tímum kófsins en hún hringdi í nokkra tugi þeirra fyrir stuttu – bara til að heyra í þeim hljóðið.

Anna Sigríður Bragadóttir

Anna hefur starfað við deildina lengi sem íslenskukennari. Eðli nýja starfsins samkvæmt hefur hún enga áfanga að kenna í ár en sinnir þess í stað öðrum spennandi verkefnum. „Nei, ég er ekki að kenna en kem heilmikið að kennslunni. Það er alltaf framþróun í kennslu sem gerir þetta svo spennandi starf. Það er alltaf verið að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún. 

Undanfarið hafi verið gert stórátak í stafrænni kennslu eins og á mörgum stöðum. Það sé jákvæð þróun. „Það væri nú samt betra að hafa þetta meira valkvætt en það er núna út af Covid – að nemendur gætu valið meira sjálfir en nú um stund verður þetta svona og það hafa allir lært heilmikið á því.“

Stærðfræðin engin grýla

Hún segir deildina ekki vilja einskorða kennsluna við veggi háskólans. „Þetta er svo fjölbreyttur hópur nemenda hjá okkur sem kemur víða að. Þau hafa öll mismunandi lífsreynslu að baki. Svo sér maður marga taka framförum hér og hreint út sagt blómstra. Ýmsir standa sig oft mun betur en þeir bjuggust við í byrjun. Til dæmis hefur stærðfræðin stundum verið grýla í hugum sumra en svo sér maður að einhver gluggi opnast.“ Þar sem Háskólagrunnur tekur eitt ár sem er „vel þjappað“ eins og Anna orðar það „segja mörg að þau læri vel öguð vinnubrögð.“

Frumgreinadeild var komin af stað með svokallað blandað nám áður en heimsfaraldurinn brast á, þar sem nemendur gátu valið að ljúka Háskólagrunni á þremur önnum í stað eins árs, og nýtt sér tæknina meira í stað þess að mæta á hverjum degi. „Við erum að fara að kynna þetta nám betur á næstunni en við tökum inn nemendur í það um næstu áramót.“

Frumgreinautskrift_hufur

Fréttir ef það var stelpa í bekknum

Námið var stofnað hér á landi árið 1964 að danskri fyrirmynd og þá við Tækniskóla Íslands, síðar Tækniháskóla Íslands, sem sameinaðist Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Á þessum áratugum hefur nemendahópurinn víkkað út svo um munar. Áður settust á skólabekkinn í frumgreinadeild iðnaðarmenn sem stefndu á nám í tæknifræði eða verkfræði þegar kennsla hennar hófst á Íslandi. „Það voru fréttir ef það var stelpa í bekknum! Sem betur fer er meiri breidd í þessu nú og nemendurnir læra mikið hver af öðrum.“ 

Í dag geta nemendur valið tækni-, tölvunarfræði-, laga-, eða viðskiptagrunn eftir því hvaða háskólanám heillar þá að undirbúningsnáminu loknu. Svo er jafnframt í boði að ljúka viðbótarprófi við stúdentspróf fyrir nemendur sem vantar frekari einingar í raungreinum til að hefja draumanámið.

Hringdu í 140 nemendur 

Anna segist stundum sakna þess að kenna þó hún hafi ekki verið í stöðu forstöðumanns lengi. „Mér finnst gefandi að vera í samskiptum við nemendurna. Við tókum okkur til ég og Gunnhildur verkefnastjóri á skrifstofunni og hringdum í alla 140 nemendur deildarinnar! Skiptum einfaldlega listanum á milli okkar og freistuðum þess að ná í alla. Það var alveg yndislegt að heyra í þeim og eiga þetta samtal á þessum Covid-tímum þegar svo fáir eru í háskólabyggingunni.“ Nemendur voru glaðir að heyra í þeim að sögn Önnu. „Já, það er bara svo gott að spjalla stundum. Annars er okkar fólk bara bratt, saknar þess mest að hitta ekki bekkinn sinn í eigin persónu en þeim gengur annars vel og finnst HR hafa staðið sig vel í kófinu. Það var mjög gott að heyra.“

Anna Sigríður Bragadóttir

Slökum ekki á neinum kröfum

Anna segist ekki sjá stórar breytingar framundan á starfi deildarinnar fyrir utan áform um öflugri stafrænar kennsluaðferðir. „Við erum með öflugt og gott nám og ég vil viðhalda því góða starfi sem hefur farið fram og mun sjá til þess að ekki verði slakað á neinum kröfum. Það er góð aðsókn í námið og núna síðast gátum við ekki tekið alla inn. Ég hvet alla til að lesa sér til á vefnum okkar hr.is og huga að umsókn með ágætum fyrirvara.“