Fréttir eftir árum


Fréttir

Hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins fær nýtt nafn

20.1.2020

Hugmyndasamkeppni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, verður haldin helgina 23. - 25. janúar næstkomandi. Keppnin fer fram undir nýju nafni þetta árið og heitir nú Vitinn.

Vitinn - Hugmyndasamkeppni fyrir háskólanemendur HRVitinn er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur HR þar sem þeir þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áskorun Vitans í ár verður á sviði sjálfbærni og umhverfismála.

Keppnin hét áður Hnakkaþon og hefur verið haldin á hverju ári síðan 2015. Nemendur skrá sig í lið og fá ákveðnu verkefni úthlutað á fimmtudag. Liðin leysa svo verkefnið yfir tvo daga og njóta leiðsagnar sérfræðinga úr atvinnulífinu. Á laugardeginum halda liðin kynningar á sínum lausnum fyrir dómnefnd sem svo fer vel yfir málin og velur vinningshafann. Tilkynnt er um sigurliðið í Sólinni seinni part laugardags.

Það lið sem sigrar í Vitanum fer í fjögurra daga ferð til Boston þar sem meðal annars stærsta sjávarútvegssýning Norður-Ameríku er heimsótt, ásamt fleiri fyrirtækjum. Ferðin er í boði Icelandair og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Hnakkathon2019-1Sigurliðið í fyrra.

Vitinn í stað Hnakkaþons

Nýja nafnið þótti meira lýsandi fyrir keppnina en í fyrsta sinn sem hún var haldin áttu nemendur að finna lausnir fyrir dreifingu og sölu á þorskhnökkum og fyrirkomulag keppninnar minnti á hakkaþon sem eru mörgum kunnug, því þótti nafnið Hnakkaþon tengja þessa tvo þætti saman á skemmtilegan hátt. Vitinn tengist sjávarútvegi á skýran hátt og hefur verið leiðarljós sjómanna um aldaraðir.

Markmið með keppninni er að kynna háskólanema fyrir einum stærsta atvinnuvegi Íslendinga og þeim möguleikum sem felast í þróun og markaðssetningu í sjávarútvegi.