Fréttir eftir árum


Fréttir

Húsfyllir á málþingi um notkun snjalltækja og samfélagsmiðla

1.2.2018

Notkun okkar og barnanna okkar á snjallsímum og viðvera á samfélagsmiðlum er augljóslega mörgum ofarlega í huga því það var afar þétt setinn bekkurinn á málþingi sem haldið var í gær um málefnið. Málþingið hafði yfirskriftina „Fíkn eða frelsi“ og var liður í Geðheilbrigðisviku í HR sem nú stendur yfir en það er náms- og starfsráðgjöf HR og sálfræðisvið háskólans sem standa að henni.

Málþingið var haldið í hádeginu frá kl. 12 til 13:30 og var um leið streymt á vefnum. Fjöldi gesta var það mikill að hluti þeirra horfði á streymið í annarri stofu. Að málþinginu stóðu, auk sálfræðisviðs og náms- og starfsráðgjafar HR: SAFT, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Heimili og skóli, tölvunarfræðideild HR og íþróttafræðisvið HR.

Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðisvið HR, ræddi um heljartak sálfræðilegra styrkingarhátta í samfélagsmiðlum og tölvuleikjum. Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi við sálfræðisvið HR, flutti erindið „Snýst lífið um læk?“ þar sem hún greindi meðal annars frá niðurstöðum rannsókna á sálfræðilegum áhrifum samfélagsmiðla meðal íslenskra unglinga. Jóhanna María Svövudóttir, nemandi í tölvunarfræði og Ólafur Freyr Ólafsson, nemandi í viðskiptafræði í HR, lýstu því hvernig er að vera ungur í dag og „alltaf í beinni“.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðisvið HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, fjallaði um það sem hún kallaði „rafrænan útivistartíma“ og tók dæmi af fyrri forvarnarátökum sem tekist hafa vel en til dæmis hefur dregið verulega úr unglingadrykkju hér á landi ekki síst vegna öflugs samstarfs foreldra og yfirvalda.

Fyrirlesari talar fyrir fullum sal í HR

Þorlákur Karlsson hélt fyrsta fyrirlesturinn.

Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir við BUGL, lýsti því hvað heilbrigður skjátími getur verið og tók tillit til leiðbeininga Bandarísku barnalæknasamtakanna frá 2016. Í lok málþingsins var orðið laust og báru gestir upp fyrirspurnir til fræðimanna sem flutt höfðu erindi. Fundarstjóri var Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

Fréttamaður tekur viðtal við konu á gangi í HRMálþingið hlaut mikla athygli í fjölmiðlum. Hér er Ingibjörg Eva Þórisdóttir í viðtali við Stöð 2.