Fréttir eftir árum


Fréttir

Hvað eiga veganútgáfan af Omega 3 fitusýrum og hugbúnaður fyrir tónlistarfólk sameiginlegt?

3.2.2020

Tvö verkefni sem unnin voru í samstarfi nemenda Háskólans í Reykjavík og íslenskra nýsköpunarfyrirtækja voru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2020. Verðlaunin eru veitt þeim nemum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum þann 29. janúar síðastliðinn en verðlaunin hlaut Halldór Bjarki Ólafsson, nemi í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hann hlaut verðlaunin fyrir verkefni sitt Tengsl óeðlilegs blóðhags við bráða fylgikvilla og langtíma útkomu eftir skurðaðgerðir.

Veganvænar Omega 3 fitusýrur

Hildur Margrét Gunnarsdóttir og Snædís Guðrún Guðmundsdóttir, nemar í heilbrigðisverkfræði við verkfræðideild HR, unnu rannsóknar- og nýsköpunarverkefni í samstarfi við fyrirtækið SagaNatura.

Þær þróuðu þær aðferðir sem hvetja þörunga til framleiðslu á omega-3 fitusýrum en fjölómettaða fitusýran omega-3 er bráðnauðsynleg fyrir heilsu okkar en eins og staðan er í dag er hún aðallega framleidd úr olíu sem fengin er frá fiski. Með breyttu loftslagi og aukinni vitundarvakningu í samfélaginu í dag er verðmæti hreinni og umhverfisvænni valkosta sífellt að aukast auk þess sem fleiri einstaklingar eru farnir að kjósa vörur sem ekki eru framleiddar úr dýraafurðum.

Leiðbeinendur voru Gissur Örlygsson, verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Lilja Kjalarsdóttir, Halla Jónsdóttir, Sigurbjörn Einarsson og Páll Arnar Hauksson frá SagaNatura.

Nyskopunarverdlaun-forseta-Islands-2020-allirHópurinn sem tilnefndur var til Nýsköpunarverðlauna forsetans en í honum eru nemendur frá Háskólanum í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. 

Notendahugbúnaðurinn Wave

Edda Pétursdóttir, meistaranemi í hugbúnaðarverkfræði við HR og Freyja Sigurgísladóttir, nemi í tölvunarfræði við HÍ, voru tilnefndar fyrir verkefni sitt sem sneri að þróun hugbúnaðar fyrir tónlistarfólk sem notar Wave, hring til tónsmíða, frá hátæknifyrirtækinu Genki Instruments. Hugbúnaðurinn hefur hlotið nafnið Softwave.

Hugbúnaðurinn átti að einfalda tengingu Wave-hringsins við tölvu og hafa fyrirfram ákvarðaðar paranir á hljóði og hreyfingu en hringurinn gerir tónlistarfólki kleift að stýra hljóði, móta það og senda skipanir með einföldum hreyfingum. Þær Edda og Freyja tóku við grunni sem þegar var búið að byggja með það að markmiði að útfæra notendaviðmótið.

Verkefnið gekk vonum framar og er útkoma þess fullbúin vara sem er notuð af fjölda tónlistarfólks um allan heim. Softwave jók bæði sölu og ánægju viðskiptavina, sem mátti glöggt sjá í ánægjukönnun sem send var út í kjölfar útgáfu. Leiðbeinendur voru þeir Ólafur Bjarki Bogason, Haraldur Hugosson, Daníel Grétarsson og Jón Helgi Hólmgeirsson, stofnendur Genki Instruments.

Nyskopunarverdlaun2020-vinningshafiHandhafi Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands í ár, Halldór Bjarki Ólafsson, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta. 

Lesa meira um verðlaunin á vef Rannís