Fréttir eftir árum


Fréttir

Hvað einkennir fjöldamorðingja?

20.4.2018

Húsfyllir var á tveimur fyrirlestrum dr. Ann Burgess og dr. Allen G. Burgess, fyrr í vikunni hér í HR. Burgess fjallaði um rannsóknarverkefni sem hún vann innan Atferlisdeildar FBI, alríkislögreglu Bandaríkjanna, á árum áður um raðmorðingja. Ann starfar núna sem prófessor í geðhjúkrunarfræðum við Boston College School of Nursing. Hún er fyrirmynd einnar aðalpersónu þáttanna Mindhunter sem framleiddir voru af Netflix og hafa notið mikilla vinsælda.

Það var MPM-námið við HR, meistaranám í verkefnastjórnun, sem stóð að komu Ann Burgess til HR, í samstarfi við Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Landssamband lögreglumanna, Mennta- og starfsþróunarsvið lögreglunnar, heilbrigðisvísindasvið HA, Verkefnastjórnunarfélagið og Rannsóknastofu í afbrotafræði við HÍ.

Ann-Burgess-2Haukur Ingi Jónasson, formaður stjórnar MPM-náms við HR, Ann Burgess og Allen G. Burgess.

Vísbendingar í æsku

Í fyrri fyrirlestrinum sem hét „Criminal Psychology: Understanding Serial Killers and Victims“ fjallaði Burgess, ásamt eiginmanni sínum dr. Allen G. Burgess, um rannsóknir á fjöldamorðingjum. Ann er afar reynslumikil þegar kemur að rannsóknum á bæði gerendum og þolendum ofbeldis en hún hefur greint 36 kynferðismorðingja og 90 brotaþola. Hún hefur reynt að kortleggja sálfræðilega hvata sem liggja að baki glæpum fjöldamorðingja og finna svör við spurningunni: af hverju fremur einstaklingur svona hræðilegan glæp, aftur og aftur? Hún segir að með rannsóknum megi vonandi koma í veg fyrir slíka glæpi. Glæpirnir sem Ann rannsökuðu gáfu til kynna ákveðið mynstur. Með því að taka viðtöl við morðingjana og kynna sér ævi þeirra og uppeldi mátti sjá þætti sem voru sameiginlegir. Fjöldamorðingjarnir voru allir hvítir, allt karlmenn og ólust ekki upp í fátækt. Strax í æsku voru þeir farnir að láta í ljós ranghugmyndir og óra um ofbeldi.

Frumkvöðull í glæparannsóknum

Rannsóknir Burgess og samstarfsmanna hennar þóttu nýstárlegar og gríðarlega mikilvægar. Með þeim hófst persónuleikagreining (e. profiling) á fjöldamorðingjum auk þess sem orðið fjöldamorðingi var fyrst notað (e. serial killer). Ann þjálfaði fulltrúa Alríkislögreglunnar í að tala við morðingja, fórnarlömb og aðstandendur slíkra glæpa og var frumkvöðull í því að formgera þessar rannsóknir og viðtöl þannig að nota mátti gögnin til að komast að niðurstöðu. Rannsóknir hennar og samstarfsfólks hennar á 8. áratugnum voru ákveðin fyrirmynd að því hvernig lögreglufulltrúar hjá FBI nýta gögn til að finna gerendur.

Seinni fyrirlesturinn hét „Project Management: Mindhunter´s Resarch Project“ og þar greindi Ann frá rannsóknum sínum út frá sjónarmiðum verkefnastjórnunar. Það sem greindi aðferðir hennar frá aðferðum annarra vísindamanna á þessum tíma er hversu mikla áherslu hún lagði á vettvangsgreiningar og viðtöl við glæpamenn.

Upptökur og viðtöl

Fyrirlestrarnir í HR

Criminal Psychology: Understanding SerialKillers and their Victims

Project Management: Mindhunter´s researchproject

Viðtal

Viðtal við Ann í fréttaþættinum Kastljósi

MPM-námið í HR

Fara á vef MPM-námsins við HR, meistaranáms í verkefnastjórnun