Fréttir eftir árum


Fréttir

Hvaðan koma lögin? Ný bók um lögfræði í víðu samhengi

3.10.2016

Bókin Lög og samfélag eftir Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er komin út. Í bókinni fjallar höfundur um lög í víðu samhengi, til dæmis út frá heimspekilegu sjónarhorni. Um er að ræða sjö greinar þar sem tekist er á við ýmsar hliðar laganna og birtingarmynd þeirra í daglegri réttarframkvæmd. Greinarnar eru sjálfstæðar en þó allar samtengdar.

Arnar Þór Jónsson„Ég reyni að nálgast viðfangsefnið út frá ýmsum hliðum og reyni að svara praktískum spurningum um lögfræðina. Til dæmis, hvernig eigum við að haga menntun lögfræðinga? Hvaða skyldur hvíla á þeim, ef einhverjar? Og svo velti ég því einnig fyrir mér hvar lögin eiga uppruna sinn, spretta þau úr grasrótinni eða koma þau frá löggjafarvaldinu?“
 
Arnar Þór hefur nokkuð skrifað um umfjöllun hér á landi um lögfræðinga og lögfræði. „Ég skrifa þessa bók inn í íslenskan veruleika og að mínu mati vantar breiðari nálgun á efnið. Það er afar sjaldan rætt eða skrifað um lögfræðina í heimspekilegu, sagnfræðilegu eða menningarlegu samhengi. Mér finnst áhugavert að velta til dæmis fyrir mér tengslum laga og siðferðis.“
 
Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og Háskólanum í Reykjavík. Hún er alls 245 blaðsíður að lengd.

Bokakapa