Fréttir eftir árum


Fréttir

Hvernig skara ég framúr?

Spennandi námskeið í viðskiptadeild

8.11.2021

Námskeiðið „Hvernig skara ég fram úr“ var kennt í þriðja skipti í HR í haust. Nemendur á öðru ári í viðskiptadeild sátu námskeiðið en markmið þess var að styrkja þá lykileiginleika sem einkenna þau sem ná árangri í atvinnulífinu. Kennari námskeiðisins var Elmar Hallgríms Hallgrímsson.

Nemendur í námskeiðinu Hvernig skara ég fram úrÁhugasamir nemendur í viðskiptadeild sitja námskeiðið Hvernig skara ég fram úr.

Fjöldi framúrskarandi einstaklinga úr atvinnulífinu hélt erindi fyrir nemendur, þeirra á meðal var Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri og einn eigenda Deloitte. Hann segir að góð tengsl við háskólanemendur skiptir Deloitte miklu máli. „Það var mjög gefandi fyrir mig að koma í tíma og deila reynslu minni til nemenda. Fagleg hæfni er eitt, en trú á eigin getu, að þekkja sérstöðu sína og að þora að skara fram úr mun veita nemendum forskot á vinnumarkaði og auka líkur á árangursríkri starfsþróun að námi loknu," segir hann.

Þorsteinn Pétur Guðjónsson kennir á námskeiðinu Hvernig skara ég fram úr

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri og einn eigenda Deloitte.

Meðal annarra gestafyrirlesara í námskeiðinu má nefna Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, Barböru Björnsdóttur, héraðsdómara og varadómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, Silju Úlfarsdóttur, hlaupadrottningu, Guðmund Pálsson, framkvæmdastjóra og einn eiganda Pipar/TBWA auglýsingastofu og Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra og eiganda Sjávarklasans.

Guðmundur Pálsson kennir á námskeiðinu Hvernig skara ég fram úr

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri og einn eiganda Pipar/TBWA auglýsingastofu.

Lára Björk Bender er ein þeirra nemenda sem sem sat námskeiðið og ber því góða söguna. „Þetta er námskeið sem ég tel að allir ættu að sækja. Áhugaverðir og líflegir fyrirlestrar ásamt hagnýtum, krefjandi en stórskemmtilegum hópaverkefnum sem skilja mann eftir með bros á vör í lok tímans,“ segir Lára. Hún segir gestafyrirlesara hafa komið úr fjölbreyttu umhverfi en ættu eitt og annað sameiginlegt, svo sem gott tengslanet, jákvætt viðhorf, útsjónarsemi - og þor. „Það er nefnilega alveg ótrúlegt hversu miklu við getum afrekað með það eitt að leiðarljósi að taka af skarið, gera mistök og læra af þeim. Í tímunum fengum við kjörið tækifæri til að spyrja þessa flottu aðila ítarlega út í bransann, lífið og þeirra vegferð að núverandi stöðu á atvinnumarkaðnum.“