Fréttir eftir árum


Fréttir

Hvílum bílinn í september

9.9.2021

Háskólinn í Reykjavík tekur nú þátt í átaki til að hvetja starfsfólk og nemendur til að hvíla bílinn í septembermánuði og prófa aðra samgöngumáta. Á samfélagsmiðlum og annars staðar verður vakin athygli á kostum þess að hvíla bílinn, fyrir umhverfið, heilsuna og umferðina. Átakið er samstarf HR, HÍ, stúdentafélaga háskólanna, Landspítalans, Reykjavíkurborgar, Strætó, ÍSÍ, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar.

Hvílum bílinn í septemberTil að stuðla að minni notkun einkabíla sem brenna jarðaefnaeldsneyti býður HR m.a. upp á hleðslustöðvar fyrir rafbíla, deilibílaþjónustu og samgöngusamninga fyrir starfsfólk.

Í átakinu verður bent á að það er einfalt að draga úr eldsneytisnotkun og tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda og svifmengun, létta á umferð, bæta heilsuna og spara pening með því að nýta reglulega umhverfisvænni kosti en einkabílinn til að komast í og úr vinnu og skóla. Slagorðið „Hvílum bílinn“ vísar til þess að til það er ekki nauðsynlegt að leggja bílnum til frambúðar til að hafa umtalsverð jákvæð áhrif. Með því að nota aðra ferðamáta en einkabílinn einu sinni í viku, getur einstaklingur til dæmis dregið úr eldsneytisnotkun á virkum dögum um allt að 20%. Sömu áhrifum má líka ná fram með því að fá far með öðrum í vinnuna eða skólann. Það munar um minna.

Til og frá HR liggja frábærir göngu- og hjólastígar og í HR er góð aðstaða fyrir hjólafólk, m.a. upplýst og vaktað hjólaskýli með aðgangsstýringu. Á samgöngukorti HR sést að það tekur t.d. ekki nema um tíu mínútur að hjóla í HR úr Kringlunni og hér má á einfaldan hátt sjá hversu langan tíma það tekur að hjóla á milli staða í Reykjavík. Rafskútur eru nýr og spennandi kostur í samgöngumálum sem geta nýst vel, t.d. með strætó, og það tekur t.d. aðeins um fimm mínútur að fara á rafskútu frá Hamraborg í Kópavogi, í HR. Í strætó njóta mörg þess að fá frí frá akstri og geta nýtt tímann sem það tekur að keyra í vinnu eða skóla í annað. Loks má nefna að mikill umhverfislegur ávinningur felst í því að nemendur og starfsfólk taki þátt í „car-pooling“ hópum þar sem meðlimir skiptast á að keyra hópinn í vinnuna eða skólann. Alla þessa skemmtilegu kosti er tilvalið að prófa í september til að hvíla bílinn og losna við langar og leiðinlegar bílabiðraðir.

Til að stuðla að minni notkun einkabíla sem brenna jarðaefnaeldsneyti býður HR m.a. upp á hleðslustöðvar fyrir rafbíla, deilibílaþjónustu og samgöngusamninga fyrir starfsfólk.