Fréttir eftir árum


Fréttir

Íbúðir fyrir nemendur og þjónustukjarni við rætur Öskjuhlíðar

22.12.2016

Haskolagardar_3Undirbúningur byggingu Háskólagarða HR hefur verið í gangi undanfarin misseri og frumhönnun á lóð HR liggur fyrir. Háskólagarðarnir, sem verða einkum fyrir nemendur HR, eru við rætur Öskjuhlíðar og liggja niður að bílastæðum HR. 

Leysir brýna þörf fyrir húsnæði

Þessi aðstaða mun breyta miklu fyrir nemendur og aðra sem tengjast Háskólanum í Reykjavík og fyrirtækjum á svæðinu. Nemendur HR hafa í dag aðgang að íbúðum Byggingarfélags námsmanna, en þær íbúðir eru líka fyrir menntavísindasvið HÍ (áður Kennaraháskóla Íslands) og nemendur í Listaháskóla og Tækniskólanum. Liðlega helmingur af 469 íbúðum í eigu BN hafi komið í hlut nemenda HR. Þessi viðbót í Háskólagörðum HR mun því breyta öllu fyrir nemendur HR og leysa brýna þörf. Nálægð Háskólagarða við HR og flutningur grunnskóla Hjallastefnunnar norður fyrir svæði HR mun einnig draga eitthvað úr umferðarálagi á Nauthólsvegi.

Tæplega 400 íbúðir

Skipulagið gerir ráð fyrir 390 íbúðum af mismunandi stærðum, allt frá litlum einstaklingsherbergjum, tæplega 20 m2 að stærð upp í um 80 fermetra þriggja herbergja í íbúðir. Byggingar eru tveggja til fimm hæða og lögð er áhersla á að byggingar falli vel að umhverfinu. Deiliskipulag og hönnun Háskólagarða HR var unnið af Kanon arkitektum eftir samkeppni um það verkefni. Lögð var áhersla á að tvinna saman borgarbyggð og útivistarsvæði Öskjuhlíðarinnar. Auk íbúða verður þjónustukjarni með dagvöruverslun, bíla- og hjólaleigu, veitinga- og afþreyingaraðstöðu fyrir stúdenta og fleira syðst á svæðinu. Þar verður jafnframt leikskóli og en grunnskóli verður fyrir norðan svæði HR, beint á móti Hótel Natura.

Deiliskipulagið er nú til kynningar og gert ráð fyrir að það verði endanlega samþykkt nú í janúar. Ef allar áætlanir ganga eftir geta  framkvæmdir hafist næsta sumar. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 112 íbúðum og munu byggingaframkvæmdir hefjast nyrst á svæðinu. Gert er ráð fyrir að byggingu þess áfanga verði lokið haustið 2019 og síðan byggist svæðið upp í heild á árunum 2020-2021. Búast má við að um 500-600 íbúar verði á svæðinu.