Fréttir eftir árum


Fréttir

Ísland hentar vel til undirbúnings rannsókna á Mars

23.5.2018

„Það er engin furða að við séum á Íslandi!“ sagði vísindamaðurinn dr. Jennifer Heldmann í fyrirlestri sínum í morgun hér í HR. Hún starfar hjá Bandarísku geimferðarstofnuninni NASA við vettvangsrannsóknir þar sem líkt er eftir aðstæðum á Mars og tunglinu. Heldmann er stödd hér á landi ásamt samstarfsfélaga sínum, dr. Darlene Lim. Hún segir Ísland vera tilvalinn stað fyrir slíkar rannsóknir þar sem jarðfræði landsins sé á margan hátt ótrúlega lík þeirri sem fyrirfinnst á Mars.

Kona heldur ræðuDr. Jennifer Heldmann lýsti rannsóknum sínum á skemmtilegan hátt í HR í morgun.

Fyrirlesturinn í morgun hófst á því að Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og fyrrverandi starfsmaður NASA, bauð vísindamennina velkomna. Oscar D. Avila, upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðiðs kynnti því næst starfsemi stofnunarinnar og svo tóku þær Heldmann og Lim við og fóru yfir helstu rannsóknir sínar og markmið með þeim.

„Okkur langar að vita meira um okkar plánetu og fleiri plánetur. Hvernig getum við skilið jarðfræði og líffræði annarrar plánetu ef við skiljum þetta ekki hér á jörðinni? Þess vegna sameinum við vísindi og vettvangsrannsóknir.“

Þær hafa meðal annars tekið þátt í rannsóknum í Mojave-eyðimörkinni í Bandaríkjunum þar sem könnunarfar leitaði að vatni og greint jarðmyndanir á Hawaii. Þær starfa í stórum hópi vísindamanna sem fæst við rannsóknir með könnunarförum. „Við sendum rannsóknarför langar leiðir sem taka sýni og senda mikilvægar upplýsingar til baka.“ Til að hámarka árangur af slíkum sendingum er fyrst búið að gera ótal hermanir og eftirlíkingar hér á jörðinni í aðstæðum sem líkjast eins mikið og mögulegt er aðstæðum á Mars og Tunglinu.

Sjónvarpsviðtal tekið við konuDr. Darlene Lim í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Þær Lim og Heldmann lýstu jafnframt yfir vilja sínum til að starfa með íslenskum fræðimönnum að rannsóknum sínum hér á landi, sem gætu farið af stað eftir ár eða svo.

Hægt er að sjá fyrirlesturinn hér: