Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslensk þekking nýtt til forvarna í Kanada

30.1.2020

Nýlega bættist Lanark-sýsla í Kanada í hóp þeirra mörgu borga og sveitarfélaga sem nýta sér þekkingu Rannsókna og greiningar til að verja ungmenni sín gegn vímuefnanotkun og áhættuhegðun.

Rannsóknir og greining hefur starfrækt rannsóknamiðstöð við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2005 og þróað aðferðafræði sem kölluð hefur verið „íslenska módelið“ og hefur verið notuð til að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna. Módelið hefur verið nýtt hér á landi til að stemma stigu við vímuefnaneyslu unglinga, en hún dróst verulega saman á tímabilinu 1998 til 2016.

Sérhæfð nálgun fyrir hvern skóla

Aðferðafræðin byggir á spurningalistum sem lagðir eru fyrir nemendur á hverju ári. Hún er sniðin að hverju samfélagi fyrir sig og byggir á gögnum sem aflað er í gegnum nemendakannanir. Í þeim er meðal annars spurt um notkun áfengis- og kannabisefna, veipnotkun, skjátíma, líkamsímynd og andlega heilsu. Þessi gögn eru síðan greind og útbúin sérhæfð nálgun fyrir hvern skóla og hvert samfélag.

Samtökin Planet Youth voru stofnuð fyrir nokkrum árum en þau hafa aðstoðað við innleiðingu „íslenska módelsins“ svokallaða í 31 landi og í yfir 100 samfélögum, til dæmis í Ástralíu, Evrópu og Afríku og í rúmlega 50 borgum í Chile, Columbíu, Mexíkó og Brasilíu. Þá hófst nýlega samstarf við fyrsta fylkið í Bandaríkjunum.

Unglingsstrákur stendur úti á götu

Íslenska módelið komið til Kanada

Lanark-sýsla Í Ontariofylki er fyrsta kanadíska sveitafélagið sem tekur upp aðferðafræðina sem kennd er við „íslenska módelið“ en í síðustu viku skrifuðu Samtökin Planet Youth Lanark undir fimm ára þjónustusamning við Rannsóknir og greiningu. Yfirvöld í Lanarksýslu hafa verið að leita leiða til að bregðast við hrakandi andlegri heilsu unglinga sem margir segjast finna fyrir álagi og kvíða auk þess sem neysla vímuefna er mikil og dauðsföllum vegna ópíóða hefur farið fjölgandi.

Heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld í sýslunni hafa leitað að heppilegri nálgun til að takast á við þennan vanda undanfarin ár og var niðurstaðan sú að fylgja hinu íslenska módeli. Átakinu var hleypt af stokkunum við athöfn mánudaginn 20. janúar, að viðstöddum fulltrúum frá Íslandi.

Ábyrgðin hjá nærsamfélaginu 

David Somppi, formaður stýrinefndarinnar fyrir Planet Youth Lanark County, segir að mörg önnur samfélög í Kanada, stór og smá, glími við sama vanda og fylgist því grannt með þróun mála. Hann segir að velgengni íslenska módelsins megi að stórum hluta rekja til þess hvernig það safnar og greinir gögn og kynnir svo á máta sem samfélögin skilja.

Ábyrgðin færist yfir á nærsamfélagið og að það móti forvarnastarf sem takist á við vandann, og svo er árangur þess starfs metinn. „Við erum mjög spennt fyrir módelinu, sem mun veita fjölskyldum og samtökum tækifæri til að skilja þessi mál betur innan okkar samfélags og ná að kljást við þau á árangursríkari hátt. Þetta eru góðar fréttir, það er öruggt,“ segir Somppi.

Þrír menn undirrita samning

Yfirlýsing um samstarf við stjórnvöld í Brasilíu var undirrituð í byrjun september 2019 að loknum opnum fundi í brasilíska þinginu. Frá vinstri: Quirino Cordeiro yfirmaður vímuvarna, Osmar Terra innanríkisráðherra Brasilíu og Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna og greininga.