Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslenskt rannsóknarstarf kynnt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

4.5.2016

Dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðisvið HR og Columbia-háskóla í New York og yfirmaður rannsókna hjá Rannsóknum og greiningu kynnti árangur Íslendinga í baráttu gegn vímuefnaneyslu unglinga fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu. Neysla áfengis meðal íslenskra unglinga á Íslandi var sú mesta í Evrópu árið 1998, en árið 2015 sú minnsta. 

Inga Dóra stendur fyrir framan aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna í New YorkInga Dóra Sigfúsdóttir fyrir framan aðalbyggingu SÞ í New York, þar sem hún kynnti rannsóknarstarf sitt

Rannsóknirnar nýttar um gjörvalla Evrópu

Verkefnið „Youth in Europe – A Drug Prevention Program“ (YiE) er fyrst og fremst byggt á íslensku forvarnarstarfi sem hófst árið 1998. Það voru svo íslenskir vísindamenn, Reykjavíkurborg og ECAD (European Cities Against Drugs) sem settu í gang þetta alþjóðlega rannsóknarverkefni sem nú er starfrækt í 19 Evrópuborgum eins og Helsinki, Búkarest, Osló, Riga og St. Pétursborg. 

YiE-áætlunin er byggð á þremur lykilþáttum: samfélagsnálgun, rannsóknarvinnu og samvinnu vísindamanna, stefnumótenda og fagfólks. Í verkefninu eru rannsóknir hafðar sem grundvöllur stefnumótunar og aðgerða hjá sveitarfélögum og ríkisvaldi, og sjónum er beint að áhættu- og forvarnarþáttum í lífi ungmenna. Þetta er gert með því að fylgjast reglulega með neyslu og margvíslegum félagslegum þáttum í lífi þeirra og svo er brugðist við ef þörf þykir.

Skýrar aðgerðir bera árangur

Íslendingar hafa stuðlað að minni neyslu ungmenna á vímuefnum síðustu tvo áratugi með aðferðum sem byggðar eru á rannsóknum YiE-rannsóknarinnar. Í þessu felst meðal annars að hækka aldurstakmark á neyslu áfengis og kaupum á tóbaki og festa í lög ströng viðurlög við sölu og bann við auglýsingum.Fjárframlög til íþróttastarfs hafa verið hækkuð umtalsvert á þessum tíma auk þess sem yfirvöld hafa sett strangar reglur um útivistartíma barna og unglinga. Jafnframt hafa foreldrar verið hvattir til að eyða meiri tíma með börnum sínum. Þessir þættir hafa haft gríðarleg áhrif.

Niðurstöður á Íslandi bera árangri þessara aðferða vitni:

  • Hlutfall þeirra 15-16 ára ungmenna sem sögðust hafa orðið drukkin í mánuðinum áður en þau svöruðu könnuninni fór frá því að vera 42% árið 1998 í 5% árið 2016
  • Daglegar reykingar voru 23% árið 1998 en voru 3% árið 2016
  • Kannabisneysla fór úr 17% í 7% árið 2016
  • Hluti þeirra barna og unglinga sem tekur virkan þátt í íþróttum fór úr 23% árið 2000 í 42% árið 2014
  • Hlutfall 14-16 ára ungmenna sem eyddi talsverðum tíma með foreldrum á virkum dögum fór úr 23% árið 1997 í 50% árið 2014
  • Hluti 14-16 ára unglinga sem höfðu verið úti við eftir kl. 22 fór úr 53% árið 2000 í 23% árið 2014 

 

„Iceland Succeeds at Reversing Teenage Substance Abuse The U.S. Should Follow Suit“ - grein í Huffington Post frá 11. maí 2016


„Grunnur að góðu samfélagi“ - viðtal við dr. Ingu Dóru Sigfúsdóttur um rannsóknina Ungt fólk