Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslenska taugalífeðlisfræðisetrið opnað í HR

16.9.2015

Íslenska taugalífeðlisfræðisetrið

Nýr heilariti til rannsókna á starfsemi heilans og taugakerfisins var tekinn í notkun við opnun Íslenska taugalífeðlisfræðisetursins í Háskólanum í Reykjavík í gær. Heilaritinn var keyptur með styrk úr Innviðasjóði Rannís en að stofnun setursins standa vísindamenn við Háskólann í Reykjavík, Landspítala – háskólasjúkrahús, Össur, Íslenska erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Hjartavernd.

Háskólinn í Reykjavík hyggst í kjölfarið efla til muna rannsóknir í taugavísindum, hugfræði (e. cognitive science) og heilbrigðisverkfræði. Heilaritinn opnar jafnframt nýja möguleika í kennslu og rannsóknum á sviði klínískrar sálfræði, verkfræði og íþróttafræði.

Dr. Ceon Ramon

Gjörbylting á aðstöðu til rannsókna í taugavísindum

Með tilkomu tækisins verður gjörbylting á allri aðstöðu til rannsókna og framhaldsmenntunar í taugavísindum hér á landi. 

Um er að ræða 256 rása heilarita sem er notaður til að skoða bæði eðlilega og óeðlilega rafvirkni í heila. Slík tæki eru notuð í sífellt meiri mæli í rannsóknum í læknisfræði, taugavísindum, heilbrigðisverkfræði og sálfræði. Aðilar taugalífeðlisfræðisetursins munu nota heilaritstækið hver á sínu sérsviði en það má m.a. nota til rannsókna á flogaveiki, Alzheimer-sjúkdómi, heilablóðfalli og þróun hugstýrðra gervilima. Heilaritinn mælir rafvirkni í öllum heilanum í einu með 256 rafskautum og gefur mun nákvæmari upplausn en áður hefur verið hægt að fá. Til samanburðar eru 16 til 64 rafskaut í þeim heilaritum sem notuð eru á sjúkrahúsum í dag. 

„Með tilkomu þessa fullkomna tækis verður aðstaða til rannsókna á rafvirkni heilans hér á landi sambærileg við það sem best gerist við erlenda háskóla. Slíkar rannsóknir nýtast víða, bæði í hagnýtum rannsóknum og í grunnrannsóknum. Það er okkur mikil ánægja að hafa fengið alla þessa öflugu aðila, sem allir eru að fást við mismunandi viðfangsefni, í samstarf við stofnun og rekstur taugalífeðlisfræðiseturs hér á landi. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með því hvað kemur út úr rannsóknum þeirra á þessu sviði á næstu árum,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.

Forstöðumaður Íslenska taugalífeðlisfræðisetursins er dr. Paolo Gargiulo.

Sjá frétt RÚV um stofnun setursins