Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslenskir neytendur þurfa að vakna

7.12.2016

Málstofa á vegum lagadeildar og viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík var haldin í gær, þriðjudag. Tilefnið var hið svokallaða Brúneggjamál og var umræðuefnið neytendamál, samfélagsábyrgð, bótaréttur, dýravelferð og upplýsingaskylda stjórnvalda.

Neytendur hafa völdin

Fyrstur tók til máls Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR. Hann ræddi meðal annars um vald neytenda og hversu miklir möguleikarnir væru til að hafa áhrif, til dæmis með samfélagsmiðlum. „Þetta er hluti af stærra samhengi. Við neytendur förum í transi inn í verslunina af því við treystum framleiðendum og verslunum en við megum vera duglegri að gagnrýna. Maður tekur reyndar eftir því að fólk er að verða meðvitaðra um þetta, en íslenskir neytendur þurfa að vakna úr þessu transi.“ Valdimar sagði verslanir og neytendur í Bretlandi vera góða fyrirmynd. Þar sé rýni sem við þekkjum frá AirBnB og TripAdvisor, að færast meira og meira yfir í matvæli og gefnar eru einkunnir. „Neytendur hafa tækifæri til að taka völdin í sínar hendur og sýna verslunum og framleiðendum aðhald. Þetta sýndi sig í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um Brúnegg.“ Helst þurfi þó að efla rannsóknir á neytendahegðun á Íslandi, en það er helsta viðfangsefni rannsókna Valdimars við viðskiptadeild.

Valdimar Sigurðsson heldur fyrirlesturValdimar Sigurðsson tók dæmi af bresku verslunarkeðjunni Marks og Spencer.

Betri tíð framundan með einföldun á lögum

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, fjallaði um lagaumhverfi dýravelferðar. Hún greindi frá helstu breytingum sem urðu við setningu nýrra laga árið 2014. Markmið laganna var að einfalda lagaumhverfið og gera eftirlit skilvirkara. Áður hafi tvö ráðuneyti farið með málið og fóru þá eftir tvennum lögum. „Það voru margar stofnanir sem fóru með eftirlitið, bæði hjá ríkinu og sveitarfélögum og þetta var óskilvirkt. Núna er eftirlit framkvæmt á þessum sömu stigum opinberrar stjórnsýslu en eru aðeins á ábyrgð eins ráðuneytis. Nú eru líka einungis ein lög um dýravelferð.“ Þarna vísaði Sigurborg til flutnings verkefna til Matvælastofnunar sem nú skipuleggur allt eftirlit. Stofnunin getur meðal annars beitt þvingunum, dagsektum, vörslusviptingu og stöðvað eða takmarkað starfsemi en til þess þarf töluverðan aðdraganda. Ný löggjöf og einfaldari ferlar gefi fyrirheit um að mál rati hraðar í gegnum kerfið en áður var.

Sigurborg Daðadóttir í ræðustóliSigurborg Daðadóttir

Ef til vill hægt að reyna hópmálsókn

Heimir Örn Herbertsson, sérfræðingur við lagadeild HR, ræddi í sínu erindi um Brúneggjamálið svokallaða út frá þremur lagalegum spurningum; upplýsingaskyldu stjórnvalda, bótarétti neytenda og miskabótum. Varðandi upplýsingaskyldu væri það ekki þannig að hver sem er geti einfaldlega fengið upplýsingar um allt það sem hann vildi vita. „Það má til dæmis ekki gefa hverjum sem er viðkvæmar upplýsingar um rekstur fyrirtækis sem nota mætti til að skaða þann rekstur. Það verður jafnframt að athuga að óska verður eftir aðgangi að tilteknum gögnum um ákveðið, fyrirliggjandi mál.“ Stjórnvöld geti því ekki alltaf látið upplýsingar í té. Þó gæti stofnun eins og Matvælastofnun nýtt sér lög um matvæli (nr. 93/1995) sem kveða á um að óheimilt sé að villa um fyrir neytendum, til dæmis með merkingum á vöru. Samkvæmt Heimi er annað atriðið, bótaréttur neytenda, í hinu svokallaða Brúneggjamáli afskaplega rýr samkvæmt lögum. „Viðkomandi þyrfti að sýna fram á fjárhagslegt tjón af því að kaupa þessi ákveðnu vistvænu egg frekar en önnur vistvæn egg og leggja fram gögn, eins og alla kassastrimla.“ Hvað með miskabætur? Voru ekki allir í geðshræringu eða „sjokki“ vegna svika sem þeim fannst sig hafa upplifað eftir umfjöllun Kastljóss? „Bætur gæti orðið um 100 þúsund krónur fyrir einstakling en málskostnaður væri þó hærri.“ Hér væri ef til vill hægt að nýta nýlegt úrræði í íslenskum lögum sem er hópmálsókn. Þeir sem að henni stæðu fengju þó aldrei mikið í sinn hlut að málarekstri loknum.

Heimir Örn Herbertsson

Hvað er grænþvottur?

Ketill Berg Magnússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR og forstöðmaður FESTU, félags um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, fjallaði að lokum um sama mál út frá samfélagsábyrgð og viðskiptasiðfræði. Ketill hóf máls á því að spyrja hvernig mynd við höfum almennt af eggjaframleiðslu, og hvort það sé mögulega búið sé að loka á upplýsingar til neytenda um það hvernig matvælaframleiðslu sé háttað. „Út frá hugmyndum um samfélagslega ábyrgð voru margar reglur brotnar hjá Brúnegg. Til dæmis merkingar, sem er dæmi um það sem hefur verið kallað „grænþvottur“.“ Orðið sé notað um það þegar fyrirtæki ljúga um samfélagsábyrgð og vistvæni til að eigna sér stærri hlutdeild í markaði. Ketill sagði að lokum ábyrgð neytenda vera mikla sömuleiðis.

Ketill Berg Magnússon

Ketill Berg Magnússon

Að loknum erindum var tekið við spurningum úr sal og voru þessir fjórir sérfræðingar spurðir út í rekjanleika matvæla hér á landi, eins og kjöts, og ábyrgð smásölunnar. Fundarstjóri var Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði og hagfræði við HR.