Íslenskt lið hlaut flest stig
Íslenska liðið viRUs endaði í fyrsta sæti í alþjóðlegri forritunarkeppni á vegum IEEE á Íslandi sem er undirfélag alþjóðlega félagsins IEEE, upphaflega félag rafmagnsverkfræðinga en er nú fagfélag allra þeirra sem starfa á fagsviðum þess.
Talning stiga stendur þó enn yfir og liggur lokaniðurstaða ekki fyrir fyrr en eftir tvær vikur. Allar líkur eru þó á að viRUs hafi farið með sigur af hólmi.
Um 2.000 lið frá öllum heimshornum voru skráð til leiks en allt að þrír þátttakendur eru í hverju liði. Meðlimir viRUs eru þeir Bjarki Ágúst Guðmundsson, Tómas Ken Magnússon og James Elías Sigurðarson, nemar í tölvunarstærðfræði í Háskólanum í Reykjavík.
Keppnin hófst á miðnætti aðfaranótt föstudags og kepptu tvö önnur lið frá Íslandi.
Leysa flókin verkefni í sameiningu
„Keppnin stendur yfir í sólarhring þar sem við fáum nýtt forritunarverkefni til að leysa á hverjum klukkutíma,“ segir Bjarki Ágúst, einn meðlima liðsins viRUs.

Strákarnir voru með nóg nesti á meðan á keppninni stóð. ljósmynd/Fésbókarsíða IEEE á Íslandi
Gefin eru 20 stig fyrir rétta lausn og bætast svið allt að 80 stig við eftir erfiðleika dæmisins. Því færri sem leysa dæmið, því fleiri eru aukastigin.
Keppnin var spennandi í ár en liðið var allan tímann eitt tíu efstu liðanna að sögn Bjarka Ágústar. „Við fórum aðeins að dragast aftur úr þegar fór að líða á keppnina en náðum svo að vinna það upp og enduðum á toppnum,“ segir Bjarki Ágúst en liðið er hæstánægt með árangurinn.
Liðsfélagarnir sofa eins og þeir geta daginn fyrir keppnina og eru tiltölulega nývaknaðir þegar keppnin hefst. Aðspurður hvernig liðið taki á álaginu sem fylgir keppninni segir Bjarki Ágúst að meðlimir liðsins reyni að skipta með sér verkum eins og þeir geta.
„Það er rosalega mikil vinna að forrita í heilan sólarhring og maður er á fullu allan tímann. Við erum allir með sér tölvu til að vinna í og reynum því að skipta með okkur verkum en þegar verkefnin eru sérstaklega flókin leysum við þau í sameiningu.“
Undirbúningur stendur yfir allt árið
Bjarki Ágúst og félagar vinna stöðugt að því að bæta sig og nær undirbúningurinn því nánast yfir allt árið. „Þetta tekur rosalega mikinn tíma, við erum að leysa dæmi alla daga og okkur finnst það rosalega skemmtilegt,“ segir Bjarki Ágúst.
Þá fara þeir meðal annars í forritunarbúðir erlendis til þess að ögra sér og undirbúa sig fyrir næstu keppnir.
Framundan eru nokkrar keppnir. Þar má nefna Norðvestur-Evrópu keppni en þrjú efstu lið þar komast í erfiðustu keppnina af öllum; heimskeppnina. Bjarki Ágúst segir langtímamarkmiðið vera að komast í þá keppni en nú einblíni liðið á að vinna sig upp í Norðvestur-Evrópu keppninni en á síðasta ári lenti liðið í þrettánda sæti.
Frétt mbl.is: Forrituðu í heilan sólarhring