Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslensku björgunarsveitirnar fyrirmynd í ákvörðunar- og áhættufræðum

11.6.2018

Ákvörðunar- og áhættufræði voru í brennidepli á alþjóðlegri vinnustofu í HR dagana 5. júní til 8. júní. Tækni- og verkfræðideild HR, í gegnum CORDA rannsóknasetur í ákvörðunar- og áhættufræðum, tekur þátt í Dahoy-verkefninu sem er Erasmus+ Evrópuverkefni ásamt nokkrum öðrum evrópskum háskólum og menntastofnunum.

Ákvörðunarfræði

Dahoy-verkefnið snýst um ákvörðunarfræði (e. decision analysis), fræðigrein sem upphaflega byggði á að nota formlegar aðferðir s.s. stærðfræði, tölfræði, bestun, hermun og jafnvel heimspeki til að komast að bestu mögulegu ákvörðun á grunni fyrirliggjandi upplýsinga. Í seinni tíð hefur áhugi margra sérfræðinga í ákvörðunarfræðum einnig beinst að því hvernig hugur okkar vinnur undir álagi þegar þarf að taka snöggar ákvarðanir og ekki gefst tóm til að nota formlegar aðferðir.

Við tækni- og verkfræðideild HR hefur þessi fræðigrein verið kennd um árabil þar sem teflt er saman formlegum aðferðum til að taka ákvarðanir og hvernig skal taka tillit til og varast vitsmunaskekkjur við ákvörðunartöku. Það eru þeir dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson, forstöðumaður CORDA, og dr. Haraldur Auðunsson, sviðsstjóri heilbrigðissviðs og skipuleggjandi Hamfaradaga, sem stýra Dahoy-verkefninu fyrir hönd HR.

Björgunarsveitir gott dæmi um viðbrögð

Nýtt og spennandi svið þessarar fræðigreinar nefnist VUCA, sem er skammstöfun fyrir ensku orðin volatile, uncertain, complex og ambiguous. Dahoy-verkefninu og VUCA-aðferðafræðinni er meðal annars ætlað að vinna með vaxandi þörf fyrir vandaðar ákvarðanir á tímum hverfulleika, óvissu, flækju og tvíræðni.

Björgunarsveitarmenn við störfÍslensku björgunarsveitirnar eru dæmi um viðbrögð við óvissuástandi.

Á vinnufundinum lögðu þeir Þórður Víkingur og Haraldur Auðunsson, og prófessoranir Helgi Þór Ingason og Haukur Ingi Jónasson til þekkingu og fræðilegt efni um notkun herma (e. simulators) við kennslu og hið einstaka fyrirbæri sem íslensku björgunarsveitirnar eru til að bregðast við VUCA-aðstæðum. Ásdís Olsen, doktorsnemi við HR, þjálfaði jafnframt evrópsku þátttakendurna í fræðum núvitundarstjórnunar (e. Mindful Leadership) sem nýtur vaxandi áhuga og vinsælda víða um heim til að taka betri ákvarðanir við krefjandi aðstæður.

Hópur fólks situr í grasi fyrir utan HRÞjálfun í stjórnun með aðferðum núvitundar.

Allir um borð í ákvörðunarbátinn

Rannsóknarsetrið CORDA mun meðal annars fá það hlutverk að leggja til fræðilegar og hagnýtar forsendur ákvörðunarfræða á sviði VUCA. Þórður Víkingur segir verkefnið vera mikilvægt: „Það getur orðið lyftistöng undir rannsóknir á sviði ákvörðunar- og áhættufræða auk þess að þróa námskeið og kennsluaðferðir fyrir framtíðina.“ Hann segir að fjöldi annarra starfsmanna HR muni koma að verkefninu á næstu árum.

Verkefnið hefur vinnuheitið Dahoy en formlegt heiti er „Decision-ship Ahoy“. Þess má geta að frumkvöðull verkefnisins, franski prófessorinn dr. Siegfried Rouvrais, er mikill áhugamaður um siglingar og þar er komin skýringin á þessu sjómannslega nafni á Evrópuverkefni um ákvörðunarfræði. Það hlaut 50 milljóna króna styrk úr ERASMUS+ rannsóknaáætlun Evrópusambandsins og var formlega ýtt úr vör sl. haust.

Frekari upplýsingar