Fréttir eftir árum


Fréttir

Jafnréttissjóður Íslands styrkir fjögur verkefni Háskólans í Reykjavík

21.6.2016

Fjögur verkefni sem unnið er að innan Háskólans í Reykjavík hlutu alls 8,5 milljónir króna úr Jafnréttissjóði Íslands síðastliðinn sunnudag. Sjóðurinn var stofnaður í fyrra og var þetta fyrsta úthlutun úr honum. Styrkir voru veittir til verkefna og rannsókna sem stuðla að jafnrétti kynjanna. Það var Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem afhenti styrkina.

Stjórn sjóðsins leggur áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnhagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Eftirtalin verkefni Háskólans í Reykjavík hlutu styrki:

Eru konur heiðarlegri en karlar eftir því sem eiginhagsmunir eru meiri?

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að komast að því hvort konur séu almennt heiðarlegri en karlar og hvort konur séu síður óheiðarlegri en karlar eftir því sem eiginhagsmunir eru meiri. Ef rétt reynist og konur hegða sér heiðarlegar en karlar eftir því sem meira er í húfi þá rennur það enn frekari stoðum undir þá ákvörðun að jafna kynjahlutfall í stjórnum hlutafélaga.

Styrkupphæð er 1.000.000 kr. og styrkþegi er Haukur Freyr Gylfason, aðjúnkt við viðskiptadeild.

Kynbundin líðan og námsgengi nemenda á starfsnámsbrautum

Rannsókn þar sem sérstaklega verður hugað að áhrifum menntunar og er meginmarkmið að varpa ljósi á kynbundna líðan og námsgengi nemenda í tækninámi. Rannsóknin getur gert tækninám aðgengilegar konum og þannig stuðlað að því að fleiri konur sæki um námið. Markmiðið er að kanna hvort tengsl eru á milli þess hvernig nemendum í tækninámi líður, þess náms- og starfsumhverfis sem þeir lifa í og námsgengis.

Styrkupphæð er 2.000.000 kr. og styrkþegi er Ásrún Matthíasdóttir, lektor við tækni- og verkfræðideild. 

Kynjajafnrétti í íþróttum

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera ítarlega úttekt á stöðu jafnréttismála í íþróttum. Til afmörkunar mun rannsóknin einvörðungu skoða stöðu jafnréttismála í handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu en það eru þær íþróttir sem flestir iðka á Íslandi.

Styrkupphæð er 3.000.000 kr. og styrkþegi er Hafrún Kristjánsdóttir, aðjúnkt við tækni- og verkfræðideild og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs HR.

Stelpur og tækni

Tækniiðnaðurinn er orðinn ein af stærstu atvinnugreinum heims og því er mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki. Stelpur og tækni er ætlað að vinna gegn kynbundu starfsvali, en eins og þekkt er stuðlar kynbundið starfsval meðal annars að kynbundnum launamun. Þrátt fyrir að konur séu í meirihluta háskólanemenda telja þær aðeins um þriðjung af nemendum í tæknitengdu námi á Íslandi. Stelpur og tækni hefur þó fyrst og fremst það skilgreinda hlutverk að vinna gegn kynbundnu náms- og starfsva

li og vinna þannig um leið gegn launamun kynjanna.

Styrkupphæð er 2.500.000 kr. og styrkþegi er Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri tengsla hjá HR.

Hópur sem hlaut styrki frá Jafnréttissjóði stillir sér upp

42 hlutu styrki

Alls bárust 114 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og var heildarfjárhæðin sem sótt var um 570 milljónir króna. Að þessu sinni hlutu 42 umsækjendur styrki, samkvæmt frétt á vef velferðarráðuneytis.