Fréttir eftir árum


Fréttir

Kaffitár opnar nýtt kaffihús í HR í haust

16.5.2019

Með haustinu geta nemendur, starfsfólk og gestir Háskólans í Reykjavík yljað sér á ilmandi kaffibolla og gætt sér á sérvöldu meðlæti í nýju kaffihúsi Kaffitárs sem mun opna í Sólinni í háskólanum í ágúst.

Á nýju kaffihúsi Kaffitárs í HR verður lögð áhersla á að mæta þörfum nemenda og starfsfólks HR hvað varðar veitingar, verð og umhverfi. Kaffitár mun sjá um innréttingar á kaffihúsinu sem staðsett verður í Sólinni og markmiðið er að skapa þar notalega stemmingu með þægilegum stólum, borðum og öðrum innréttingum. Samkvæmt samningi HR og Kaffitárs verður verð á veitingum 15% lægra en almennt á öðrum kaffihúsum Kaffitárs.

Kaffitár var stofnað árið 1990 og hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á sjálfbærni og umhverfismál. Öll kaffihús fyrirtækisins eru Svansvottuð og 80% af því kaffi sem fyrirtækið flytur inn er keypt beint frá bónda.

Stjórnendur frá HR og Kaffitári standa í tröppunum í SólinniFrá vinstri: Ingunn Svala, framkvæmdastjóri rekstrar hjá HR, ásamt Sólrúnu og Hafsteini frá Kaffitári og Ó. Johnson og Kaaber.