Fréttir eftir árum


Fréttir

Keilusnakkið varð hlutskarpast

16.5.2017

Á hverju vori að loknum prófum er nemendum á fyrsta ári í grunnnámi úr öllum deildum HR skipað í 3-4 manna hópa af handahófi. Hóparnir fá það verkefni að leggja fram viðskiptaáætlun og frumgerð fyrir nýja viðskiptahugmynd á aðeins þremur vikum. Markmiðið með námskeiðinu, sem heitir Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, er að kynna nemendur HR fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, gerð viðskiptaáætlunar og þverfaglegri samvinnu strax í upphafi námsins. Þátttakendur voru fleiri en gengur og gerist þetta árið þar sem hópur frá Háskólanum í Alberta í Kanada tók einnig þátt, en þetta er í fyrsta sinn sem nemendur frá öðrum háskóla ljúka námskeiðinu. Háskólinn í Alberta stefnir að því að taka upp svipað námskeið.

Hóparnir fá leiðsögn og ráðgjöf frá kennurum HR, starfsmönnum Icelandic Startups og fleirum. Þeir kynna verkefnið reglulega með svokölluðum lyftukynningum þar sem ein mínúta gefst til að þess að „selja“ hugmyndina hugsanlegum fjárfestum og gera oft frumgerð af nýrri vöru eða tæknilausnum. Nemendur þurfa ennfremur að sýna fram á að hugmyndin geti skilað hagnaði. Að þremur viknum liðnum er haldið lokahóf þar sem allir hóparnir, sem eru á sjöunda tug, kynna hugmyndir sínar. Dómnefnd velur svo bestu hugmyndina og veitir verðlaun í þremur flokkum.

Volcano Seafood valin besta hugmyndin

Sá hópur sem þykir leggja fram bestu viðskiptaáætlunina í námskeiðinu hlýtur Guðfinnuverðlaunin en stofnað var til þeirra fyrir um áratug síðan með það að markmiði að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun nemenda við HR. Að þessu sinni var verðlaunahópurinn Volcano Seafood sem náði að búa til viðskiptaáætlun og vöru á þremur vikum; þurrkaða keilu sem er bragðbætt og neyta má sem snarls, líkt og harðfisks. Hópurinn skapar þannig verðmæti úr ódýru og vannýttu hráefni. Volcano Seafood var jafnframt valið besta sjávarútvegsfyrirtækið. Í hópnum eru: Dagur Arnarson, Guðný Bernódusdóttir, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Hallgrímur Þórðarson og Svanhildur Eiríksdóttir.

Volcano_SeafoodHópurinn á bak við Volcano Seafood með viðurkenningar sínar.

Forrit og ferðaþjónusta

Besta upplýsingatæknifyrirtækið var valið Tilfinninga Finnur, en hópurinn þróaði hugmynd að forriti sem aðstoðar börn á einhverfurófinu að skilja tilfinningar og skynja félagslegar aðstæður. Í hópnum eru Daníel Andri Baldursson, Haukur Guðmundsson, Júlíus Ingi Guðmundsson og Sólveig Agnarsdóttir.

Besta ferðaþjónustufyrirtækið var valið Wonders of Iceland. Hópurinn setti fram hugmynd að upplifunarsetri í Reykjavík þar sem ferðamenn geta kynnst náttúruundrum Íslands á einum stað. Hópinn skipa þau Herdís Ómarsdóttir, Kolbrún Kristín Antonsdóttir, Njáll Skarphéðinsson og Stefanía Ósk Pétursdóttir.

Receptus hlaut verðlaun umhverfishóps starfsfólks Háskólans í Reykjavík. Hópurinn þróaði hugmynd að hugbúnaðarlausn og símaforriti sem getur leyst pappírsprentara og pappírskvittanir af hólmi.