Fréttir eftir árum


Fréttir

Kennarar við HR hljóta styrki fyrir nýsköpun í kennslu

28.10.2019

Kennarar við Háskólann í Reykjavík láta til sín taka í nýsköpun í kennslu en meðal þróunarverkefna þeirra eru raddstýrt kennsluefni, myndbönd um mikilvægi eðlisfræði, rafrænt námsefni í dönsku, gagnvirkt kennsluefni og notkun snjallsíma sem kennslutækis.

Fyrsta úthlutun úr Kennsluþróunarsjóði HR fór fram á dögunum en hann á að styðja við nýsköpun í kennslu og gæði kennslu við háskólann. Hugmyndirnar koma frá kennurunum sjálfum og þeir sjá um að þróa þær áfram ásamt öðrum sérfræðingum. Alls var veitt rúmlega 20 milljónum í einstök verkefni.

Talþjónn sem aðstoðar nemendur

HrefnaBEinn af þeim kennurum sem hlutu styrk er Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði og hagfræði. Hún vinnur að raddstýrðri kennslu þar sem þróaður er talþjónn sem aðstoðar nemendur við að nálgast kennsluefni og læra það. „Talþjónninn er aðgengilegur í gegnum hin ýmsu snjalltæki og fylgir því nemandanum hvert sem hann fer, rétt eins og þau hlusta á t.d. Spotify. Þannig fær nemandinn aðgang að stafrænum aðstoðarkennara og getur betur stjórnað því hvar, hvenær og hvernig hann nálgast kennsluefni sem er í takt við vinnulag og venjur þessa aldurshóps. Prófanir eru þegar hafnar í einu námskeiði í viðskiptadeild á þessari önn og er ætlunin að nota búnaðinn enn frekar í fleiri námskeiðum á vorönn.“

Átta nýsköpunarverkefni styrkt

Alls hlutu átta kennarar styrk úr þessari fyrstu úthlutun sjóðsins. Verkefnin þeirra eru:

  • Anna S. Bragadóttir, frumgreinadeild – Nám og gerð námsefnis í íslensku, áhersla á upplýsingatækni
  • Björg Hilmarsdóttir, frumgreinadeild – Gerð rafræns námsefnis í dönsku
  • Haraldur Auðunsson ofl., verkfræðideild – Myndbönd um mikilvægi eðlisfræði og gagnvirkt kennsluefni um meðferð og framsetningu mæligagna
  • Haukur Freyr Gylfason, viðskiptadeild – Mat á kennslumati
  • Hlynur Arnórsson, iðn- og tæknifræðideild – Kennsluaðferðir í stærðfræði í tæknifræði
  • Hrefna S. Briem, viðskiptadeild – Raddstýrt kennsluefni
  • Margrét Vala Kristjánsdóttir, lagadeild – Rit í stjórnsýslurétti
  • Sigurður Ingi Erlingsson, verkfræðideild – Snjallsími sem kennslutæki

Við mat á umsóknum er meðal annars litið til þess hversu líklegt sé að verkefni mun stuðla að því að auka gæði kennslu ákveðinna námskeiða, kennslu á ákveðnum námsbrautum, kennslu í deildum eða kennslu við skólann í heild.