Fréttir eftir árum


Fréttir

Kennsla á netinu gengur vel en nemendum gengur misjafnlega að læra heima

1.4.2020

Nemendur Háskólans í Reykjavík eru almennt á því að vel hafi tekist til við að færa kennslu á netið í kjölfar lokunar háskólans vegna COVID-19 og starfsmönnum HR hefur gengið vel að vinna heiman að frá sér. Háskólanemar hafa þó áhyggjur af stöðunni og gengur misjafnlega að læra heima. Þetta er meðal niðurstaðna kannana sem HR gerði nýverið til að fylgjast með líðan nemenda og starfsmanna og kanna hvernig þeim hefur gengið að aðlagast breyttum aðstæðum.

Könnunin meðal nemenda var gerð í samstarfi við Stúdentafélag HR dagana 30. mars til 31. mars. Svör bárust frá 880 nemendum. Niðurstöður varðandi breytt kennslufyrirkomulag eru mjög jákvæðar, en 60% nemenda sögðu að vel hafi gengið að færa kennslu á netið í þeirra námskeiðum og aðeins um 12% sögðu það ekki hafa gengið vel. Þegar spurt var hvernig nemendum gengi að læra heima við sögðu 30% nemenda að það gangi mjög eða frekar vel, en um 45% að það gangi frekar eða mjög illa. Margir nemendur nefndu að erfiðar utanaðkomandi aðstæður þessa dagana geri námið heima við erfitt. Flestir nemendur, eða um 60% segjast passa vel upp á andlega og líkamlega heilsu. Líðan nemenda var þó misjöfn og sögðu um 35% þeirra að þeim líði frekar eða mjög vel á meðan ríflega 30% sögðu að þeim líði frekar eða mjög illa þessa dagana. Hátt í 40% nemenda telur að núverandi ástand muni hafa frekar eða mjög mikil áhrif á nám þeirra á heildina litið á meðan að yfir 60% telur ekki að ástandið muni hafa mikil áhrif á námið, á heildina litið.

Könnun meðal starfsmanna var gerð 27. til 30 mars og henni svöruðu 124 starfsmenn. Samkvæmt henni hefur starfsmönnum gengið vel að færa vinnuna heim en yfir 75% þeirra sögðu að þeim gangi vel að vinna heima, um 55% sögðu að þeim líði mjög eða frekar vel þessa dagana, aðeins rúm 10% að þeim líði frekar illa og engir að þeim líði mjög illa.