Gamithra og Bjarni Thor unnu Forritunarkeppnina 2019
Forritunarkeppni framhaldsskólanna var haldin síðastliðin laugardag í Háskólanum í Reykjavík en það er tölvunarfræðideild sem stendur fyrir henni. Fjöldi ungmenna hvaðanæva að á landinu mættu til keppni og létu hvassviðrið ekki aftra sér. Liðin sem taka þátt geta verið skipuð 1-3 framhaldsskólanemum.
Liðin leysa forritunardæmi yfir heilan dag og í lok keppnisdags eru veitt verðlaun fyrir 1. - 3. sæti í hverri deild. Keppnin er ekki eingöngu ætluð þeim sem hafa reynslu af forritun fyrir heldur er hún fyrir alla framhaldsskólanema, jafnt þá sem hafa lært forritun og aðra. Þess vegna var keppninni nú sem endranær skipt í þrjár deildir eftir erfiðleikastigi.
Vinningshafar
Liðið Bits please sigraði í Alpha-deild. Hér eru þau Bjarni Thor og Gamithra ásamt Luca Aceto, forseta tölvunarfræðideildar, og aðstandendum keppninnar sem eru nemendur við deildina.
Alpha - deild
Alpha-deildin var fyrir þá keppendur sem hafa mikinn áhuga á forritun og skara fram úr. Þar hrósaði sigri liðið „Bits please“ sem skipað var þeim Bjarna Thor Kárasyni og Gamithra Marga, nemendum úr Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum á Tröllaskaga. Í öðru sæti var lið frá Tækniskólanum og í þriðja sæti voru keppendur úr MR.
-
1. sæti: Bits please - MR/MTR
-
2. sæti: Arrays Start At 1 - Tækniskólinn
-
3. sæti: Hrúguyfirfallsmisgjörð - Menntaskólinn í Reykjavík
Þeim verður boðið að taka þátt í æfingabúðum með því markmiði að velja í Ólympíulið Íslands í forritun.
Beta - deild
Beta-deild var millistig sem brúaði bilið á milli hinna deildanna tveggja. Þar hrósaði fulltrúi frá MR sigri en fast á hæla honum komu keppendur frá FB.
- 1. sæti: Bjarni Dagur Thor Kárason - Menntaskólinn í Reykjavík
- 2. sæti: ¡Stuðboltastelpurnar! - Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
- 3. sæti: Nos iens experior - Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Delta - deild
Sigurliðið í Delta deild er úr Tækniskólanum.
Delta - deild var fyrir byrjendur eða þá sem eru rétt farnir að kynnast forritun. Það var Tækniskólinn sem réði lögum og lofum í þessari deild en úrslitin í henni voru eftirfarandi:
-
1. sæti: %0|%0 - Tækniskólinn
-
2. sæti: nafn=input() - Tækniskólinn
-
3. sæti: Pizza Time - Tækniskólinn
Besta nafnið
Nafnið „Það vildi enginn vera með mér í liði :(“ var valið það besta í ár, frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Um Forritunarkeppni framhaldsskólanna
Háskólinn í Reykjavík hefur staðið fyrir Forritunarkeppni framhaldsskólanna í fjölmörg ár og hefur ásókn í keppnina aukist ár frá ári. Á síðunni forritun.is má sjá myndbönd frá keppninni, fjölmörg æfingadæmi og lista yfir liðin sem tóku þátt í ár, en nafngiftir liðanna eru oftar en ekki afar frumlegar.