Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Kepptu við Harvard í samningatækni í Suður-Ameríku

17.5.2017

Samningatækni er eitt þeirra viðfangsefna sem kennarar í MBA-námi og öðru meistaranámi við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sérhæfa sig í. Árlega sendir deildin lið nemenda í keppnina Negotiation Challenge og keppnina var haldin í HR fyrir örfáum árum. Í þetta sinn var keppnin haldin í Bogotá í Kolumbíu.

Með því að beita réttri tækni í samningum má komast að niðurstöðu sem allir aðilar eru sáttir við.

Samningatækni er notuð á margvíslegum sviðum þjóðfélagsins til dæmis þegar leysa þarf úr ágreiningi og komast að hagstæðri niðurstöðu í viðskiptum. Þeir nemendur sem keppa fyrir hönd Háskólans í Reykjavík þurfa að æfa sig í margar vikur áður en haldið er út og njóta við það góðrar þjálfunar kennara viðskiptadeildar. Lið HR í ár lenti í sjötta sæti og voru liðsmenn ánægðir með árangurinn. Alls fara liðin í gegnum þrjár lotur þar sem semja þarf við annað lið um t.d. sölu á eignarhlutum, skiptingu fjármuna og pólitísk málefni.

Fjórir nemendur standa í hóp og eru með borgina Bogota í baksýn

Lið HR í keppninni í ár með stórborgina í baksýn. Frá vinstri: María Kristín Guðjónsdóttir, Finnbogi Haukur Birgisson, Þorvarður Kjerúlf Sigurjónsson (þjálfari liðsins) og Brynjólfur Ægir Sævarsson.

Liðsmenn í ár stunda MBA-nám og meistaranám í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði við viðskiptadeild.

Finnbogi Haukur Birgisson lýsti síðustu lotu keppninnar:

„Síðasta umferðin var heldur strembin og það var sú lota sem ýtti okkur neðar á stigatöfluna en við höfðum verið í 3-4 sæti framan af. Við lentum á móti liði Harvard-háskóla þar sem við áttum að semja um skiptingu á kostnaði, tekjum og öðrum atriðum við endurgerð Panama-skipaskurðarins. Þetta reyndist mjög dýrmæt reynsla. Liðið var gott, það beitti mikilli tímapressu og héldu sama tilboði í um 35 mínútur af 45 mínútum. Við vissum að við ættum séns á verðlaunasæti eftir hinar þrjár umferðirnar og því vildum við frekar taka áhættu og enda jafnvel með slæman samning frekar en engan sem gerði það að verkum að við fengum ekki mörg stig úr þessari lotu og við enduðum næst neðst okkar megin í þessum samningi. Eftir á að hyggja hefðum við átt að sleppa samningi við Harvard, því með þessu ýttum við þeim upp í þriðja sæti og við enduðum í því sjötta.“