Kosinn í stjórn Evrópusamtaka um fræðilega tölvunarfræði
Magnús Már Halldórsson, prófessor við tölvunarfræðideild HR, hefur verið kjörinn í stjórn Evrópusamtaka um fræðilega tölvunarfræði (European Association for Theoretical Computer Science).
Magnús verður í stjórn samtakanna í fjögur ár en hann er einn af meðlimum Þekkingarseturs í fræðilegri tölvunarfræði (ICE-TCS) við tölvunarfræðideild HR. Forseti samtakanna er Luca Aceto sem einnig er prófessor við tölvunarfræðideild og meðlimur ICE-TCS.
Magnús segist vilja leggja áherslu á miðlun rannsókna innan fræðigreinarinnar í Evrópu. Nú sé meira efni gefið út í tengslum við ráðstefnur en í nokkurri annarri fræðigrein og það þurfi að skoða. Einnig vill hann að samtökin styðji í meiri mæli verkefni milli landa og stofnana.
Í rannsóknum sínum í tölvunarfræði hefur Magnús Már einkum skoðað þráðlaus, sjálfsprottin net. Í Tímariti Háskólans í Reykjavík sem nýlega kom út, er viðtal við Magnús þar sem hann lýsir áhuga sínum á fræðunum. „Ég fór í tölvunarfræði á sínum tíma því ég hafði svo gaman af forritun. En svo komst ég að því að ég hafði í raun meira gaman að því að leysa stærðfræðilegar spurningar tengdar þeim verkefnum sem ég var að vinna við. Það eru kannski ekki margir sem tengja stærðfræði við skapandi greinar, en ég get tekið undir þetta. Að búa til nýja þekkingu er svo skemmtilegt og gefandi.“
Lesa má viðtalið við Magnús í heild sinni hér
Sjá einnig: