Fréttir eftir árum


Fréttir

Komust að niðurstöðu um einkunnaverðbólgu

29.2.2016

Niðurstöður notaðar hjá Menntamálastofnun

IMG_8608--1-Halla Berglind Jónsdóttir og Bjarki Benediktsson eru nemar á þriðja og síðasta ári í grunnnámi í rekstrarverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR. Í námskeiði í hagfræði sem Bolli Héðinsson, hagfræðingur kennir, ákváðu þau að skoða svokallaða „einkunnaverðbólgu“ en umræða um hana kemur reglulega upp á vorin þegar nemendur í 10. bekk sækja um í framhaldsskóla. Ákváðu þau að skoða töluleg gögn frá grunnskólanemum sem sóttu um í Verzlunarskóla Íslands. Menntamálastofnun hefur tekið verkefni þeirra Höllu og Bjarka fagnandi:

Menntamálastofnun hefur fært sér í nyt verkefni sem tveir nemendur við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík gerðu. Rannsókn þeirra og niðurstöður hafa reynst okkur afar gagnlegar við mat á forspárgildi einkunna úr 10. bekk. Verkefnið er lýsandi dæmi um notagildi þekkingar og hvernig má beita henni á hagnýtt viðfangsefni.

- Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar

Eru nemendurnir kannski að verða betri?

„Okkur lék forvitni á að vita af hverju inntökuskilyrði í Verzló hafa hækkað eins og raun ber vitni” segja þau Bjarki og Halla þegar þau voru spurð út í verkefnið. „Árið 2004 var hæsta grunnskólaeinkunn í íslensku 9,5 en 10 árum seinna var það algengasta einkunin af þeim sem hlutu skólavist. Þannig breyttist hlutfallið úr 2% í 45%”. Þessi þróun vekur auðvitað spurningar og þau ákváðu að leita svara. „Við veltum fyrir okkur tveimur skýringum.  Annars vegar að einfaldlega séu betri og/eða fleiri nemendur að sækja um Verzlunarskólann heldur en áður eða að um kerfisbundna skekkju sé að ræða,  svokallaða einkunnaverðbólgu” segir Halla. 

Meðaleinkunn í stærðfræði 9,5

Halla og Bjarki skoðuðu eingöngu gögn úr íslensku og stærðfræði þar sem þau fög hafa mest vægi þegar sótt er um skólann.  Skoðað var hvernig meðaleinkunnir þeirra grunnskólanema, sem komust inn í skólann, þróuðust  milli ára, borið saman við námsárangur á fyrsta ári.  Gögnin sýna að skólaeinkunnir hafa hækkað mikið milli ára og hafa aldrei verið hærri en árið 2015 þar sem meðaleinkunn var 9,5 í stærðfræði og 9,22 í íslensku.

,,Við byrjuðum á að skoða hvort fjöldi umsókna í Verzló hafi aukist enda hafa margir haldið fram að vinsældir hans séu ástæða hækkunarinnar” segir Bjarki, „við komumst þó að því að svo er ekki og hefur fjöldi umsókna haldist nokkuð stöðugur síðustu ár, lækkað ef eitthvað er, eftir að hafa náð hápunkti árið 2008”. Halla segir þau einnig hafa athugað hvort nemendur standi sig betur í námi í Verzlunarskólanum nú en áður.  Ekki hafi þó verið hægt að álykta að svo væri þar sem  meðaleinkunn í stærðfræði á fyrsta ári hafi lækkað eftir afnám samræmdu prófanna, en meðaleinkunn í íslensku hafi staðið í stað.

Bilið mun minnka enn meira

„Þar sem hvorki var um fleiri né hæfari nemendur að ræða var ákveðið að skoða hvort hugtakið einkunnarverðbólga, sem hefur verið í umræðunni eftir afnám samræmdu prófanna, ætti rétt á sér” segir Halla. „Við ákváðum því að skoða þetta frá hagfræðilegu sjónarhorni og komumst við að því að árleg hækkun einkunna er í kring um 1,4%”. Bjarki segir að haldi þessi þróun áfram og einkunnir hækki á hverju ári skapi það augljóslega vandamál fyrir menntakerfið. Fleiri nemendur muni fá sömu einkunn þar sem 10,0 er hæsta mögulega einkunnin. Þá mun bil milli nemenda minnka sem gerir framhaldsskólum erfiðara um vik að greina á milli árangurs þeirra.

Þarf að breyta námsmati

Niðurstaða þeirra er sú að ákveðin skekkja sé í menntakerfinu.  Eftir afnám samræmdu prófanna var námsmat skólanna fært í hendur grunnskólanna og er ekki lengur í höndum þriðja aðila.  Tilgáta þeirra er sú að mismunandi námsmat í einstökum skólum valdi þessu.  Kennarar vilji ekki skerða möguleika nemenda sinna á að komast inn í draumaframhaldsskólann, með því að hafa lokaprófin hjá sér erfiðari en í öðrum skólum. Hver er lausnin að mati Höllu og Bjarka? „Einhvers konar samræmd próf þar sem metin er hæfni frekar en utanbókarlærdómur,“ er samdóma álit þeirra beggja.