Fréttir eftir árum


Fréttir

Kraftmiklar ræður á brauskráningarathöfn

Hildur Davíðsdóttir flutti ræðu fyrir hönd nemenda tæknisviðs og Sandra Sif Gunnarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd nemenda á samfélagssviði þegar nemendur HR voru útskrifaðir 18. júní.

20.6.2022

Brautskráningarathöfn Háskólans í Reykjavík fór fram síðastliðinn laugardag. Athöfnin var afar hátíðleg en meðal þeirra sem héldu ræður voru þær Hildur Davíðsdóttir sem hélt ræðu fyrir hönd nemenda tæknisviðs og Sandra Sif Gunnarsdóttir fyrir hönd nemenda á samfélagssviði. 

Fjöldi útskriftarnemenda situr í Hörpunni og horfir upp á svið.Sandra Sif sem hlaut verðlaun bæði frá Viðskiptaráði Íslands og frá sálfræðideildinni fyrir hæstu einkunn í grunnnámi, gerði bætt aðgengi nemenda að námi að umfjöllunarefni í sinni ræðu en Hildur sem útskrifaðist með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði líkti námi sínu við krefjandi fjallgöngu í sinni ræðu. 

Við óskum þeim Söndru og Hildi, sem og öllum útskriftarnemendum, kærlega til hamingju með áfangann og birtum hér þessar kraftmiklu ræður í heild sinni svo að sem flest geti notið þeirra.

Kona heldur ræðu í Hörpu við HR púltRæða Hildar:
Kæru samnemendur, starfsfólk HR og aðrir góðir gestir. Það er sannur heiður að fá að halda hér ræðu fyrir hönd útskriftarnema. Ég vil byrja á því að óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með þennan merka áfanga. Þetta er uppskeruhátíð okkar allra, nemenda jafnt sem starfsfólks sem hefur leiðbeint okkur í náminu en ekki síst ættingja og vina okkar sem stutt hafa við bakið á okkur í gegnum súrt og sætt þessi ár.

Fyrir tveimur árum kleif ég hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk, með dags fyrirvara. Margur myndi með sanni telja það vera hreinasta glapræði, í besta falli óþörf sjálfspíning og óskynsemi. Af sama mikilmennskubrjálæði og ég samþykkti að halda þessa ræðu – hélt ég af stað.

Margt er líkt með námsvegferð minni í HR og göngu þessari. Gangan hefst upp bratt Sandfellið í Öræfasveit. Ekkert nema urð og grjót, upp í mót. Klífandi skriður, skríðandi kletta. Þannig geta fyrstu metrarnir í nýju námi reynst mörgum erfiðir jafnvel þó námsefnið byrji nokkuð viðráðanlega. Á hverjum degi spurði ég mig hvort valið hafi verið rétt og raunar var það ekki fyrr en námið var rúmlega hálfnað sem ég hugsaði: jú, hér á ég heima.
Í ellefu hundruð metrum er farið í svokallaða öryggislínu þar sem göngugarpar eru tengdir saman með reipi. Hér þarf að finna sameiginlegan takt við allra hæfi, en það er einmitt ein þeirra fjölmörgu þrauta sem kennarar standa frammi fyrir með fjölbreyttan hóp nemenda. Ef farið er of geyst er hætt við því að einhverjum skriki fótur en ef farið er of hægt fer öðrum að leiðast. Hér reynir því á samstöðu allra þátttakenda. Í HR er mikið lagt upp úr hópavinnu en þar hafði ég takmarkaða reynslu í upphafi náms. Ég var of þver til að kyngja stoltinu og biðja um hjálp þegar ég var í öngstræti komin í verkefnum og nógu kokhraust til að halda að ég kæmist í gegnum þau ein og óstudd. Í hópavinnu lærir maður að virða og taka til greina sjónarmið annarra, miðla málum og komast þannig að sameiginlegri niðurstöðu. Ávinningur slíkrar vinnu er gjarnan margfaldur á við einstaklingsvinnu og hef ég ósjaldan hugsað í kjölfar verkefnaskila: Já, þetta hefði ég ekki getað ein! Fyrir þessar lexíur, að læra að biðja um hjálp og að vinna með fólki, er ég ævinlega þakklát HR. Í leiðinni eignaðist ég vinkonur fyrir lífstíð sem hafa verið mín öryggislína í gegnum námið. Við björgum hvor annarri upp úr þeim sprungum sem á vegi okkar verða og höldum ótrauðar áfram, í takt. Það er fátt eins dýrmætt og gott samferðarfólk og gildir þá einu hvort um ræðir fjallgöngu, nú eða háskólanám.

Brattasti kafli göngunnar eru síðustu 200 metrarnir upp á sjálfan hnjúkinn. Þar duga engin vettlingatök. Reima þarf á sig brodda og hafa ísexi meðferðis. Hér reynir á úthaldið og viljastyrkinn. Undir lok námsins þreyttum við í hugbúnaðarverkfræðinni með eindæmum strembinn áfanga - það var okkar hnjúkur. Þau voru ófá kvöldin sem
maður sat sem eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár fyrir framan tölvuna, tilbiðjandi hina og þessa guði. Á endanum hafðist þetta og í dag stöndum við alsæl skýjum ofar í tvöþúsund metra hæð og fögnum glæstum áfanga. Eftir þetta eru okkur allir vegir færir.

Þessi leið er varla vogandi nema hraustum taugum eins og skáldið orti enda hristir enginn háskólagráðu fram úr erminni fyrirhafnarlaust. Námið krefst eljusemi, linnulauss aga og seiglu, sér í lagi á undanförnum misserum, og því megum við sannarlega vera stolt af okkur. Þessi vegferð hefur undirbúið okkur undir þau verkefni sem okkar bíða í framtíðinni – og það eru engin smáræðisverkefni. Með tæknimenntun höfum við tryggt okkur gullna miðann sem gerir okkur kleift að hafa áhrif á stefnuna sem tekin verður í stóru málunum – enda vitum við öll að tæknin er framtíðin. Með þessum miða fylgir líka ábyrgð. Okkur ber skylda til að hagnýta þá þekkingu sem við höfum öðlast til góðra verka. Skapa nýjungar í þágu loftlagsmála, varðveita íslenskuna í gjörbreyttu málumhverfi með tilkomu snjalltækja, hafa ætíð siðferðileg sjónarmið að leiðarljósi í þróun tækni og stuðla að auknum fjölbreytileika innan tæknigeirans svo fátt eitt sé nefnt.

Undanfarin ár hafa verið söguleg og það verður ekki hjá því komist að minnast á heimsfaraldurinn en þar sýndi starfsfólk skólans óþrjótandi viðleitni og útsjónarsemi til þess að finna lausnir á þeim margvíslegu áskorunum sem upp komu. Fyrir hönd nemenda vil ég þakka ykkur fyrir gífurlega vel unnin störf við snúnar aðstæður. Ykkur tókst að gera þjónustu við nemendur persónulega á tímum samkomutakmarkanna. Geri aðrir betur.

Ég er stolt af því að hafa verið nemandi Háskólans í Reykjavík. Það eru algjör forréttindi að fá að nema við þennan skóla, í framúrskarandi aðstöðu og undir leiðsögn heimsklassa kennara sem búa yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Orðspor skólans er gott og hér er verið að útskrifa metfjölda nemenda á hverju ári. Tækifærin sem nemendum við skólann bjóðast bæði á meðan námi stendur sem og eftir það eru frábær. Héðan göngum við inn í framtíðina með dýrmæta reynslu og gott veganesti í farteskinu.

Til hamingju öll! Takk fyrir.

Kona heldur ræðu í Hörpu við HR púltRæða Söndru Sifjar:
Kæru útskriftarnemar, rektor, deildarforsetar, fjölskyldur, vinir og aðrir góðir gestir. Innilega til hamingju með daginn.

Fyrir hönd allra útskriftarnema vil ég byrja á því að þakka, foreldrum, systkinum, ömmum, öfum, mökum, börnum, vinum og kennurum fyrir ómetanlegan stuðning, hvatningu og þolinmæðina síðustu árin. Án ykkar værum við ekki hér í dag.

Þegar ég hóf háskólanám fyrir þremur árum voru tilfinningarnar blendnar. Ég var mjög kvíðin fyrir komandi árum og þegar ég gekk inn í skólann á fyrsta skóladegi fannst mér ég vera hálf brjáluð að ætla leggja á mig alla þessa vinnu og stress. En ég var líka mjög spennt fyrir því að opna nýjan kafla í lífi mínu. Að sögn margra voru framundan skemmtilegustu ár lífsins, full af frelsi, nýjum kynnum og að sjálfsögðu blússandi félagslífi. Það er því dálítið einkennileg niðurstaða að ég hafi varið meirihluta námsins og þreytt flest lokapróf heima; á náttfötunum; með kettinum mínum.

Þegar Þórólfur mælti með samkomutakmörkunum og skólinn skellti í lás var ljóst að fyrirkomulag námsins yrði að breytast. Líkt og aðrir nemendur skólans hafði ég áhyggjur af því hvort breytt fyrirkomulag myndi duga til að skila okkur þeim árangri sem við vonuðumst til. Myndi tæknin duga til að sinna öllum þáttum námsins eins og til var ætlast? Myndum við ná þessu öllu á tilsettum tíma? Eftir ýmsar tæknitilraunir, smávegis klaufaskap og basl, fundum við þó loks taktinn og við tók nýr veruleiki; fjarnám!

Efasemdir mínar um fjarnám og áhyggjur af seinkunum reyndust þó algjörlega ástæðulausar. Ég uppgötvaði nefnilega fljótlega að fjarnám átti afskaplega vel við mig og þær aðstæður sem ég bý við. Auðvitað þótti mér leitt að geta ekki, hitt samnemendur, mánuðum saman og átt með þeim góðar stundir, en fyrir mig, sem mjög sjónskertan einstakling, var það bylting að geta haft aðgang að öllu námsefninu og fyrirlestrunum á rafrænu formi og get ég fullyrt að þetta hafi verið bestu námsaðstæður sem ég hef haft á allri minni skólagöngu.

Nú þegar samkomutakmörkunum hefur verið aflétt og staðnám er tekið við, er hollt að líta um öxl og læra af og nýta það sem vel var gert í faraldrinum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að upptökur fyrirlestra hafi bætt aðgengi nemenda að náminu og gert þeim kleift að aðlaga það betur að sínum þörfum. Það að bjóða upp á upptökur af fyrirlestrum eftir kennslustundir, samhliða staðnámi, myndi ekki aðeins gera námið þægilegra og aðgengilegra fyrir nemendur heldur myndi það einnig gera fleirum kleift að stunda nám, svo sem fötluðum og fjölskyldufólki. Ég vil því hvetja HR til þess að halda áfram á þessari braut.

Þegar ég lít til baka yfir seinustu þrjú ár, er þakklæti mér efst í huga. Ég vil þakka öllu starfsfólki HR, fyrir þann mikla stuðning, hvatningu og þolinmæði sem þið hafið sýnt okkur og auðvitað fyrir alla þá þekkingu sem þið hafið látið okkur í té. Einnig vil ég þakka öllum samnemendum mínum fyrir skemmtilegar stundir og frábæra samvinnu og vona ég að þíð séuð jafn stolt af árangir ykkar og ég.

Kæru útskriftarnemar. Í dag stöndum á tímamótum, því í dag höfum við lokið einum stærsta áfanga í lífi okkar og framundan eru spennandi tímar. Hvert sem för ykkar er heitið, hvort sem það er í frekara nám, í vinnu (vonandi í draumastarfið), í heimsreisu eða hvað annað, þá óska ég ykkur alls hins besta. Munið að vera þið sjálf hvert sem leiðin liggur, fylgið hjartanu, eltið draumana og njótið þess að vera til. 

Enn og aftur til hamingju með daginn og til hamingju með frábæran námsárangur, lífið er núna. Takk fyrir!