Fréttir eftir árum


Fréttir

Kvenleiðtogar hitta nemendur

10.11.2021

Susana Malcorra og Maria Fernanda Espinosa, meðlimir samtaka kvenleiðtoga GWL Voices (Global Women Leaders Voices for Change and Inclusion), sem nú taka þátt í heimsþinginu Reykjavik Global Forum – Women Leaders (WPL), sóttu HR heim í gær.

ICE_8475-copy

Heimsókn þeirra er hluti af röð viðburða sem þær kalla „Intergenerational Dialogues“. Markmið viðburðanna er að efla þátttöku ungra kvenna í mótun nútíðar og framtíðar með samræðu milli kynslóða kvenna og að mynda tengslanet háskólanema á heimsvísu.

Hópur nemenda úr HR hitti Malcorra og Espinosa í gær, ásamt Hafrúnu Kristjánsdóttur forseta íþróttafræðideildar, Heru Grímsdóttur forseta iðn- og tæknifræðideildar og Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, forseta samfélagssviðs. Nemendur höfðu tækifæri á að leggja fram spurningar og ræða um jafnrétti, hindranir kvenleiðtoga og stöðu kvenna í heiminum.

Susana Malcorra var utanríkisráðherra Argentínu 2015-2017 og síðar ráðgjafi forseta Argentínu. Hún bar m.a. ábyrgð á 11. þingi Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar WTO í Buenos Aires 2017. Hún er rafmagnsverkfræðingur með 25 ára starfsreynslu í viðskiptum í tæknigeiranum (Telecom og IBM). Í apríl 2012 var hún skipuð starfsmannastjóri framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon. Nú er hún ráðgjafi hjá IE háskólanum á Spáni.

María Fernanda Espinosa er frá Ekvador og var forseti 73. þings allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur verið utanríkisráðherra Ekvador, varnarmálaráðherra og samhæfingarráðherra náttúru- og menningarminja. Árið 2008 var hún fyrsta konan til að verða fastafulltrúi Ekvador hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Hún stýrði starfi bandalags Suður-Ameríku og Karíbahafsríkja (CELAC) í Genf og á 21. ráðstefnu aðila (COP 21) um loftslagsbreytingar í París. Hún er með meistaragráðu í félagsvísindum og rannsóknum á Amazon svæðinu auk framhaldsmenntunar í mannfræði og stjórnmálafræði.