Fréttir eftir árum


Fréttir

Kvíði hjá íþróttafólki algengari en hjá sambærilegum hópum

10.9.2015

Andleg líðan íþróttafólks

Íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík, Knattspyrnusamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands efndu til málþings um andlega líðan íþróttamanna í HR gær.

Húsfyllir var á málþinginu og greinilegt að þörf er á meiri umræðu um þessi mál og möguleg úrræði.

Fyrst tóku til máls Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs HR, ásamt Margréti Láru Viðarsdóttur. Þær héldu erindi um geðrænan vanda og algengi hans hjá íþróttamönnum sem byggt er á niðurstöðum rannsókna þeirra við íþróttafræðisvið. Samkvæmt þeim niðurstöðum er kvíði meiri hjá íþróttamönnum í boltaíþróttum en hjá öðrum hópum á sama aldri. Sagði Hafrún að þetta mætti skýra að einhverju leyti með mörgum streituvaldandi þáttum í umhverfi íþróttafólks, eins og þrýstingi varðandi frammistöðu. Hugrún gagnrýndi það jafnframt að engin úrræði væru innan íþróttahreyfingarinnar til að bregðast við kvíða og þunglyndi íþróttafólks. 

Því næst hélt Sævar Ólafsson erindi sitt „Íþróttaiðkun í mótvindi og svartnætti“. Þar fjallaði hann um rannsókn sína við íþróttafræðisvið HR og reynslu sína af því að spila fótbolta í meistaraflokki og glíma á sama tíma við þunglyndi. Fram kom í máli hans að hann hafi verið afar gagnrýninn á sjálfan sig og frammistöðu sína með liðinu. 

Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnumaður, sagði einnig frá glímu sinni við geðræna erfiðleika.

Ráðstefnustjóri var Ragnhildur Skúladóttir. 

Andleg líðan íþróttafólksFullt var út úr dyrum á málþinginu í gær.