Fréttir eftir árum


Fréttir

Kynntu sér tæknigreinar í Hringekjunni

9.11.2017

Um 40 ungmenni úr 9. og 10. bekk Breiðsholtsskóla brugðu út af vananum í dag og settust á skólabekk í Háskólanum í Reykjavík. Þar fræddust þau um tölvunarfræði, forritun, verkfræði og margt fleira.

Hress hópur úr Breiðholtsskóla.

Á hverju ári skipuleggur Háskólinn í Reykjavík námskeið þar sem 9. og 10. bekkjum eins grunnskóla í senn er boðið í HR og fá nemendur stutt námskeið á vegum tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar, undir handleiðslu kennara deildanna. Í ár voru það þau Marta Kristín Lárusdóttir, dósent við tölvunarfræðideild, og Magnús Kjartan Gíslason, lektor við tækni- og verkfræðideild, sem kenndu námskeiðin. Nemendurnir fengu jafnframt að setjast upp í kappakstursbíla sem nemendur við HR smíðuðu og skoðuðu ýmsar aðrar skemmtilegar tækninýjungar og aðstöðuna í HR.

Markmiðið með Hringekjunni er að gefa krökkunum nýja sýn á heim tækninnar og vekja forvitni þeirra og áhuga á tækni- og raungreinum. Lögð er áhersla á að sýna þeim leiðir til að nýta tæknina til að skapa, leysa verkefni og öðlast frekari skilning á ólíkum viðfangsefnum. Krakkarnir í ár voru hæstánægðir með Hringekjuna og sögðust hafa skemmt sér konunglega.