Fréttir eftir árum


Fréttir

Settu saman tölvur, hönnuðu vefsíður og forrituðu með Sonic Pi

29.5.2019

Það var líf og fjör í HR síðasta miðvikudag þegar Stelpur og tækni dagurinn var haldinn í Háskólanum í Reykjavík í sjötta sinn. Á þessum degi er stelpum úr 9. bekk grunnskóla boðið í HR, þar sem þær taka þátt í fjölbreyttum vinnustofum, og tæknifyrirtæki. Hjá fyrirtækjunum taka konur sem þar starfa á móti hópunum og gefa innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi.

Í þetta sinn var hópnum skipt í tvennt; á meðan helmingur hans heimsótti fyrirtæki var hinn helmingurinn í vinnustofum í HR en eftir hádegi var þessu snúið við. Í hádeginu hittist allur hópurinn í Sólinni þar sem boðið var upp á veitingar auk þess sem Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðieildar HR, og Salka Sól Eyfeld, listakona, héldu stutt erindi og hvöttu stelpurnar til dáða. Þetta árið tók metfjöldi þátt í deginum, eða hátt í þúsund stelpur. Dagurinn var jafnframt haldinn á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri en það er í annað skipti sem það er gert.

Kona heldur erindi í SólinniSalka Sól ræddi meðal annars um staðalímyndir og störf.

Markmið með deginum er að vekja áhuga stelpna á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn. Að verkefninu stendur Háskólinn í Reykjavík ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins, með styrk frá Framkvæmdasjóði jafnréttismála.

Vinnustofurnar

Viðfangsefni vinnustofa í HR voru af ólíkum toga eins og fyrri ár. Þær lærðu forritun og gerð vefsíðu, vefhönnun, uppbyggingu tölvuleikja, tölvutætingi og Sonic Pi forritun. Vinnustofurnar voru í umsjá/samvinnu við: /sys/tur, félag kvenna í tölvunarfræði við HR, kennara við tæknisvið HR, Tækniskólann, Menntaskólann á Ásbrú, Forritunarkeppni framhaldsskólanna, Fagkonur, Myrkur, Landsnet og Syndis.

Tvær stelpur sitja í skólastofu í HRTveir áhugasamir nemendur í vinnustofu í HR.

Tæknifyrirtækin

Fyrirtækin sem buðu í heimsókn í ár voru: Activity Stream, Advania, Arion banki hf, CCP, Creditinfo, EFLA, Íslandsbanki, Kolibri, Krónan, Landsbankinn hf., Landsnet, Landsvirkjun, LS Retail ehf., Mannvit, Marel, Meniga, Microsoft á Íslandi, Nova, Opin Kerfi, Origo, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög, RB, Sendiráðið, Sensa, Síminn, Sýn, Tempo, Valitor, Wise lausnir og Össur.

Um Stelpur og tækni

Þetta var í sjötta sinn sem Stelpur og tækni er haldinn í HR. Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.