Fréttir eftir árum


Fréttir

Laganemar spreyttu sig í Hæstarétti

7.11.2016

Úrslitin í EES-málflutningskeppninni voru haldin síðasta sunnudag í Hæstarétti Íslands en keppnin er samvinnuverkefni lagadeilda HR, HÍ og HA og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Sjö lið voru skráð til keppni skipuð nemendum úr lagadeildum ofangreindra háskóla. Til úrslita kepptu lið frá HR og HÍ. Keppnin var á ensku og byggði á málavöxtum sem reyndu á ólíka þætti EES-réttarins.

Það var lið HÍ sem bar sigur úr býtum að þessu sinni. Eitt af liðum HR varð hlutskarpast í skriflega hluta keppninnar, og fékk verðlaun fyrir bestu greinargerðina. Laganemarnir sem tóku þátt fyrir hönd HR sögðu það hafa verið vonbrigði að hafa ekki unnið en að sama skapi hafi þeir verið mjög ánægð með keppnina og þátttöku sína í henni. Þetta var í fyrsta sinn sem þau tóku þátt í málflutningskeppni á ensku. Það hafi jafnframt verið góð reynsla að flytja mál í húsakynnum Hæstaréttar ásamt því að hafa reynda dómara í panelum, en dómarar í keppninni voru m.a. Páll Hreinsson dómari í EFTA dómstólnum og Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari.

Gott samstarf nemenda setti skemmtilegan svip á keppnina

Að sögn dr. Gunnars Þórs Péturssonar, dósents við lagadeild HR og verkefnisstjóra keppninnar, var markmiðið að veita nemendum góða þjálfun og reynslu: „Við lærðum margt af keppninni og að sjálfsögðu má eitthvað bæta en við lögðum upp með að mæta með fjögur jöfn lið og gefa öllum jöfn tækifæri. Það setti jafnframt skemmtilegan svip á keppnina að hún var samstarf háskólanna og nemendurnir náðu að kynnast og umgangast, bæði á þeim þremur viðburðum sem voru haldnir í sameiningu við upphaf keppninnar, á meðan hún stóð yfir og við lok hennar. Átta nemendur frá HR, HÍ og Bifröst, voru svo til aðstoðar alla keppnina, við tímatökur og fleira.“