Fréttir eftir árum


Fréttir

Laganemar tókust á í Hæstarétti

30.3.2017

Málfutningskeppni Lögréttu, félags laganema við HR, var haldin þann 18. mars síðastliðinn í Hæstarétti. Þar kepptu tvö lið nemenda, skipuð þremur laganemum hvort, og fluttu mál fyrir rétti. Málflutningskeppnin er opin nemendum sem eru komnir á þriðja ár í námi eða lengra.

Vinningsliðið í málflutningskeppninni undirbýr sig við borð í HæstaréttiMeðlimir vinningsliðsins búa sig undir málflutning í Hæstarétti.

Hannes Guðmundsson er formaður Málfundafélags Lögréttu. Hann segir andrúmsloftið hafa verið spennuþrungið. „Já, það var mikil spenna og fín mæting. Við reyndum að líkja sem best eftir þeim aðstæðum sem mæta málflytjendum í Hæstarétti. Í panel sátu þrír dómarar, þau Ingveldur Einarsdóttir, settur Hæstaréttardómari, Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild HR og Þórður S. Gunnarsson, héraðsdómari og fyrrum forseti lagadeildar HR.“

Málið var dæmt stefnendum í vil en lögmenn stefnanda voru þeir Guðmundur Narfi Magnússon, Theodór Bender og Friðbert Þór Ólafsson.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir var valin málflutningsmaður Lögréttu.

Þetta var í fyrsta sinn sem keppt var í Hæstarétti en keppnin hefur verið haldin í húsakynnum HR hingað til. Liðin deildu um dómsmál á sviði kröfuréttar og snerist málið um gildi peningaskuldar sem stofnað hafði verið til í tengslum við fjárhættuspil. Það voru Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Diljá Helgadóttir og Sigríður María Egilsdóttir sem sigruðu í Málflutningskeppni Lögréttu þetta árið.

Hannes_GudmundssonHannes tók ekki þátt sjálfur þar sem hann er á öðru ári en mun skrá sig til leiks á því næsta. „Ég fékk góða reynslu af því að skipuleggja þessa keppni. Þetta er mikil vinna; mikið af símtölum og samskiptum við nemendur, dómara og Hæstarétt. Það var virkilega gaman að sjá þetta ganga svona vel upp.“