Vilja koma íslenskum þorski á innkaupalista Bandaríkjamanna
Sigurlið Vitans - hugmyndakeppni sjávarútvegsins, leggur til að sjávarútvegsfyrirtækið Brim sýni greinilega sjálfbærni íslenskra fiskveiða í markaðssetningu á þorski í Bandaríkjunum.
Vitinn er hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins og er haldin á vegum HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar vinna lið í því að leysa ákveðna þraut yfir þrjá daga. Samstarfsfyrirtækið í ár var Brim sem stundar veiðar og vinnslu á botn- og uppsjávarfiski og selur afurðir um allan heim.
Vinningsliðið í ár samanstendur af nemendum úr verkfræðideild og tölvunarfræðideild en keppnin er opin öllum nemendum háskólans. Úrslit í keppninni voru kynnt á laugardaginn síðasta.
Sigurliðið mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.
Konurnar kaupa inn
Verkefni Vitans í ár var að koma með tillögu fyrir sjávarútvegsfyrirtækið Brim að sölu þorsks til Bandaríkjanna og nýta í markaðssetningunni hversu sjálfbærar veiðar eru hér við land. Góður markhópur fyrir íslenskan þorsk er að mati liðsins ungar og vel stæðar konur í Maine í Massachusetts. Rannsóknir sýna að konur taka ákvarðanir um kaup á neytendavörum í 85% tilfella. Liðið lagði til að vörumerkið „Bára“ yrði notað og í markaðsskilaboðum yrði lögð áhersla á heilsu, uppruna og auðvelda matreiðslu, auk sjálfbærni.
Vinningsliðið - frá vinstri: Anton Björn Sigmarsson,
nemi í hátækniverkfræði, Zoë Vala Sands, nemi í MPM-námi í
verkefnastjórnun, Brynja Dagmar Jakobsdóttir, nemi í
tölvunarfræði og fjármálaverkfræði, og Kristín Sóley K. Ingvarsdóttir, nemi
í tölvunarfræði og hátækniverkfræði.
Minni umhverfisáhrif af veiðum
Einnig leggur liðið til að tölvusjón (e. computer vision) verði notuð til að greina jafnóðum fisk sem kemur í veiðarfæri og að vélnám (e. machine learning) verði notað á gögn úr skynjurum sem notaðir eru við veiðar, til að bæta orkunotkun. Þannig megi draga úr olíunotkun, stytta veiðitíma og minnka umhverfisáhrif veiða.
Dómnefnd Vitans 2020 skipuðu:
- Ari K. Jónsson, rektor HR
- Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
- Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims
- Magnús Þorlákur Lúðvíksson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Icelandair
- Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR
Hugmyndasamkeppnin Vitinn gekk áður undir nafninu Hnakkaþon og hefur verið haldin árlega frá 2015.