Fréttir eftir árum


Fréttir

Leggur til að lög séu samin á grunni tölulegra gagna um vilja fólks

28.9.2020

Út er komin bókin „Conceptualising Procedural Fairness in EU Competition Law“ eftir Hauk Loga Karlsson, nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Titill bókarinnar gæti útlagst á íslensku sem „Greining hugmyndarinnar um sanngjarna málsmeðferð í evrópskum samkeppnisrétti“. Í bókinni fjallar höfundur um ólíkar hugmyndir um hvað felist í sanngjarni meðferð samkeppnismála hjá dómstólum Evrópusambandsins. Þar takast á sjónarmið þeirra sem telja núverandi kerfi fullnægjandi og þeirra sem finnst að meiri þurfa að gera til að tryggja sanngjarna málsmeðferð. Á grundvelli umfjöllunar um samkeppnisrétt leggur Haukur til nýstárlegar aðferðir við lagasetningu þar sem skoðanir og viðhorfs fólks væru metin með tölulegum gögnum.

Haukur Logi Karlsson nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.Haukur Logi Karlsson nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

 „Nútíma lagasetning byggir enn þá í grunninn á 19. aldar fulltrúalýðræði, sem ætlað var að tengja lögin við vilja fólksins. Þetta kerfi hefur hins vegar verið að brotna niður á undanförnum áratugum víða um lönd, sökum hagsmunagæslu öflugra hagsmunaafla. Sökum fjármagns og aðstöðu hafa sumir hagsmunaaðilar betri aðstöðu en aðrir til að hafa áhrif á löggjafann í sína þágu. Þetta skekkir það sanngirnisjafnvægi sem lögin þurfa að endurspegla í lýðræðisþjóðskipulagi, veldur pólitískum óróa og stuðlar að misskiptingu,“ segir Haukur.

 „Með bókinni legg ég til hugmynd um hvernig hægt væri að blása nýju lífi í lýðræðishugmyndina með því að nálgast lagasetningu á grundvelli tölulegra gagna um vilja fólks, þar sem tekið væri tillit til þess hversu mikilvægur vilji hvers og eins er í hvert og eitt skipti. Bókin er skrifuð út frá sjónahorni málsmeðferðarreglna í evrópskum samkeppnisrétti, en grunnhugmyndin hefur víðari skírskotun. Ég sé fyrir mér framtíð þar sem gnógt gagna liggur fyrir um vilja fólks, sem hægt væri að nýta með aðstoð nútímatækni til þess að setja sanngjörn lög af meiri nákvæmni en nú tíðkast.“

 Að mati höfundar felst sanngjörn málsmeðferð í að jafnvægi sé náð á milli þess sem ólíkir hagsmunaaðilar vilja. Þar skipti sjónarmið nákvæmni og kostnaðarhagkvæmni mestu máli. Skattgreiðendur vilja t.d. að markmiðum samkeppnislaga sé framfylgt með áhrifaríkum og hagkvæmum hætti, á meðan sakborningar vilja að lögunum sé framfylgt af eins mikilli nákvæmni og unnt er til þess að koma í veg fyrir rangar ákvarðanir og dóma. Frá sjónarhóli skattgreiðenda er ekki sanngjarnt að eyða ómældum fjármunum í að ná fullkominni nákvæmni í einstökum málum, á meðan sakborningum þykir ósanngjarnt að bera áhættu af rangri niðurstöðu máls. Samkeppnisaðilar og neytendur kunna svo að hafa enn aðra skoðun á þessu jafnvægi.

Sitt sýnist því hverjum um hvað sé sanngjörn málsmeðferð og því ljóst að einhverskonar jafnvægi á milli ólíkra sjónarmiða hljóti að þurfa að koma til. Höfundur leggur til aðferð til þess að finna þetta gullna jafnvægi við gerð málsmeðferðarreglna, þar sem tekið er tillit til ólíkra sjónarmiða hagsmunaaðila og þess hversu mikið vægi einstök sjónarmið ættu að hafa. Aðferðin byggir á verkfærum hagfræðinnar og gerir ráð fyrir upplýsingasöfnun um vilja þeirra sem hafa hag af viðkomandi málsmeðferðarreglum.