Fréttir eftir árum


Fréttir

Leiðir nám í verkefnastjórnun við Jarðhitaskóla SÞ

27.4.2015

Helgi Þór Ingason er dósent við tækni- og verkfræðideild HR og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun, MPM. Hann var nýlega fenginn til þess að koma á fót nýrri námsbraut við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.

Jarðhitaskóli SÞ

Jarðhitaskóli SÞ hefur verið starfræktur frá árinu 1979 en það er Orkustofnun sem hefur haldið utan um starfsemi hans hér á landi. Námið við Jarðhitaskólann er ætlað þeim sem lokið hafa háskólanámi og verja nemendur hans sumrinu í sérhæfðu námi sem tengist viðfangsefnum eins og nýtingu og forðafræði.

Námsráð Jarðhitaskólans hefur nú ákveðið að leggja ríka áherslu á verkefnastjórnun til viðbótar við ofangreind svið. „Ég fundaði með forsvarsmönnum skólans síðasta sumar og það kom á daginn að þeir vilja byggja upp verkefnastjórnun innan námsins,“ segir Helgi Þór um aðkomu sína að Jarðhitaskólanum. „Ég á semsagt að leiða það nám og tek sæti í námsráði skólans. Við munum keyra þetta af stað í sumar, og ég hef fengið með mér einvala lið frá tækni- og verkfræðideild HR eins og til dæmis Hauk Inga Jónasson, lektor og formann stjórnar MPM-náms og Pál Jensson, prófessor. Þetta verður algerlega ný námsbraut með nálgun á jarðvarmaverkefni út frá fjármögnun og fjármálum.“ Einnig koma að kennslunni fleiri sérfræðingar, til dæmis frá verkfræðistofunni Verkís.

Helgi Þór Ingason

„Nú er vilji til þess að efla stjórnunarþáttinn í náminu, þetta hefur verið raunvísinda- og tæknimiðað nám, og verður það að miklu leyti áfram. Hlutverk skólans er þó að gefa innsýn í alla þætti jarðvarmaverkefna, leit að orku, þróun, nýtingu og nú fjármögnun, en það er oft stór óvissuþáttur. Góð stjórnun verkefna er lykilatriði ef ná á árangri. Verkefnastjórnun er ung grein hér á landi en hefur verið í mjög örri þróun undanfarin ár. Nú er þetta lykilþáttur í starfsemi fyrirtækja og er núna sérstök faggrein og við sem sérhæfum okkur á þessu fræðasviði skrifum greinar um verkefnastjórnun og rannsökum ýmis viðfangsefni henni tengd.“

Helgi segir að ný námsbraut verði kennd með fyrirlestrum, æfingum og vettvangsferðum. „Ísland hentar afar vel til að hýsa Jarðhitaskóla SÞ enda er mikil þekking hér á landi. Í raun er landið okkar býsna einstakt hvað þetta varðar og þekking íslenskra vísindamanna er orðin útflutningsvara. Ég er afar stoltur að vera í þeim hópi.“