Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendum HR gefst tækifæri til að læra ákvörðunarfræði í Frakklandi

4.12.2018

Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í Evrópuverkefninu D'Ahoy ásamt nokkrum öðrum evrópskum háskólum og menntastofnunum. Markmiðið með D'Ahoy verkefninu er að vera lyftistöng undir rannsóknir á sviði ákvörðunar- og áhættufræða auk þess að þróa námskeið og kennsluaðferðir fyrir framtíðina.

Átta nemendum Háskólans í Reykjavík gefst færi á að ferðast til Frakklands og dvelja þar í fimm daga í febrúar eða mars. Þar munu nemendurnir læra ákvörðunarfræði á nýjan og spennandi hátt í alþjóðlegu umhverfi hafnarbæjarins Brest í Bretagnehéraðinu. Nemendur fá ferðakostnað og uppihald greitt.

Um ákvörðunarfræði og VUCA

Ákvörðunarfræði (e. decision analysis) er fræðigrein sem upphaflega byggði á að nota formlegar aðferðir s.s. stærðfræði, tölfræði, bestun, hermun og jafnvel heimspeki til að komast að bestu mögulegu ákvörðun á grunni fyrirliggjandi upplýsinga. Í seinni tíð hefur áhugi margra sérfræðinga í ákvörðunarfræðum einnig beinst að því hvernig hugur okkar vinnur undir álagi þegar þarf að taka snöggar ákvarðanir og ekki gefst tóm til að nota formlegar aðferðir. VUCA er nýtt svið innan stjórnunarfræðanna og er skammstöfun fyrir ensku orðin volatile, uncertain, complex og ambiguous. D'Ahoy og VUCA er meðal annars ætlað að vinna með vaxandi þörf fyrir vandaðar ákvarðanir á tímum hverfulleika, óvissu, flækju og tvíræðni.

Kynningarfundur

Kynningarfundur um námskeiðin verður haldinn 7. desember kl. 13:00 í stofu V101. Umsóknarfrestur er til 18. desember. Hægt er að sækja um annað eða báðar vinnustofunar með því að senda tölvupóst á nemendabokhald@ru.is