Fréttir eftir árum


Fréttir

Blandað lið MR og MS vann Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna

29.3.2019

Framhaldsskólanemar stýrðu fyrirtæki

Í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna keppa þriggja til fjögurra manna lið í að stýra fyrirtæki í ákveðinn tíma með sem bestum árangri. Mikilvægur hluti af starfi stjórnenda er að taka ákvarðanir, bæði um atriði í starfsemi frá degi til dags og stærri ákvarðanir sem hafa áhrif á starfsemina, og samfélagið allt, til frambúðar.

Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna 2019

Keppnin er haldin á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og er góð leið til að vekja áhuga ungs fólks á góðri og ábyrgri stjórnun. Hún er byggð á Edumundo-herminum sem hefur farið sigurför um heiminn. Í ár tóku 18 lið þátt og þar af voru þrjú tengd fjarfundarbúnaði.

Nokkur ungmenni hlæja í skólastofu

Aðstandendur keppninnar hjá viðskiptadeild sögðu keppnisskapið hafa verið mikið í liðunum og að stemningin hafi verið mjög góð meðan á keppninni stóð. Jóhann Ari Sigfússon, formaður Markaðsráðs, nemendafélags nemenda í viðskiptafræði og hagfræði við HR, hélt stutt erindi um félagslífið og mikilvægi þess að taka þátt í því og mynda gott tengslanet og Elín Helga Lárusdóttir greindi frá reynslu sinni af því að vera viðskiptafræðinemi en hún er á fyrsta ári í viðskiptafræði við HR.

Úrslit

1. sæti

Í fyrsta sæti var liðið Pénz II, blandað lið Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund, en liðið hlaut peningaverðlaun frá menntasjóði Viðskiptaráðs Íslands. Liðið skipa Oddur Stefánsson, Magnús Baldvin Friðriksson og Björgvin Viðar Þórðarson. Fjórði liðsmaðurinn, Stefán Orri Stefánsson, var veikur daginn sem keppnin fór fram.

Ungir menn standa með verðlaunSigurvegararnir í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna árið 2019, ásamt Hrefnu Briem, forstöðumanni BSc-náms við viðskiptadeild.

2. sæti

Í öðru sæti var blandað lið Menntaskólans í Reykjavík og Verzlunarskóla Íslands en liðið hét Mr. Versló. Það skipuðu Arnór Gunnarsson, Ægir Örn Kristjánsson, Helgi Rósantsson og Þorsteinn Ívar Albertssonen. Liðið hlaut að verðlaunum gjafakort frá Zo-on.

Ungir menn standa með verðlaun

3. sæti

Lið Menntaskólans í Reykjavík var í þriðja sæti Stjórnunarkeppninnar. Liðið hét Son of Stylonius og var skipað þeim Jasoni Andra, Kristjáni Leó, Erni Steinari og Eygló Sóleyju. Liðið hlaut að verðlaunum gjafakort í Reykjavík Escape.

Lið í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna

Að auki hlutu öll liðin í efstu þremur sætunum páskaegg frá Nóa Síríus.