Fréttir eftir árum


Fréttir

Lið Oxford-háskóla forritaði sig til sigurs í HR

30.3.2021

Alþjóðlega forritunarkeppninn NWERC fór fram í Háskólanum í Reykjavík um helgina. NWERC er svæðiskeppni Norður-Evrópu fyrir ACM-keppnina þar sem nemendur frá öllum heimshlutum keppa sín á milli í forritun.

Í NWERC-keppninni mætast lið frá háskólum í Belgíu, Lúxemborg, Bretlandi, Írlandi, Íslandi, Eistlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi, Hollandi og Litháen. Efstu 3-4 liðin úr svæðiskeppninni komast áfram í heimskeppnina.

Reyndir forritunarkappar 

Keppnishaldið var með öðru sniði en áður þar sem keppnin fór fram á netinu. Það eru fyrrum nemendur tölvunarfræðideildar, Bjarki Ágúst Guðmundsson og Unnar Freyr Erlendsson, sem sáu um að halda keppnina hér á landi fyrir hönd tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Þeir eru báðir vanir forritunarkappar og tóku á sínum tíma þátt í NWERC mörg ár í röð fyrir hönd HR með glæsilegum árangri. Þeir starfa núna báðir hjá Google, Bjarki í öryggisteymi fyrirtækisins í Sviss en Unnar í München í Þýskalandi. 

Léttir að liðin náðu ekki að klára 

Upphaflega átti keppnin að vera í Sólinni í HR síðasta nóvember en eins og allir vita voru margar áætlanirnar sem ekki stóðust árið 2020. Þess í stað var brugðið á það ráð að halda keppnina á netinu núna í mars. „Mér heyrist allir vera ánægðir með þetta, þó allir hafi þurft að vera á sínu heimili í stað þess að hittast augliti til auglitis. Við reyndum að gera þetta sem skemmtilegast, vorum með beina útsendingu þegar við fórum yfir lausnir á verkefnum og héldum fyrirlestur fyrir keppendur. Svo voru þau bara til í að gera gott úr þessu, voru mjög virk á Youtube-spjallinu til dæmis,“ segir Bjarki. 

Hann var yfirdómari í ár og átti heiðurinn af því að gera verkefnin ásamt 12 öðrum dómurum frá öllu svæðinu. „Við höfðum áhyggjur fyrir keppnina að þetta yrði of létt en með þessu fyrirkomulagi er hvert lið með þrjár tölvur, eina á hvern keppanda, en venjulega er hvert lið bara með eina tölvu til að skrá lausnirnar á. Liðin náðu ekki að klára síðasta verkefnið þannig að það var léttir!“ Þetta var í fyrsta sinn sem keppnin er haldin með þessum hætti. 

Tveir menn standa við borð inni í kennslustofuFrá vinstri: Unnar og Bjarki við bikarinn sem verður sendur sigurliðinu í Oxford. 

Lið Oxford, KTH og Utrecht sterkust

Lið Oxford-háskóla, Los Patros, var sigurliðið í ár. Í öðru sæti var lið frá hinum sænska KTH og í því þriðja lið Utrecht háskólans í Hollandi. Inni á vef keppninnar má sjá lokastöðuna og verkefnin sem liðin leystu:

Langar þig að spreyta þig í forritunarkeppni?

Forritunarkeppni framhaldsskólanna verður haldin á vegum HR laugardaginn 24. apríl. Kynntu þér málið!