Fréttir eftir árum


Fréttir

Lögðu til notkun gervigreindar í markaðssetningu á fiski

28.1.2019

Úrslit Hnakkaþonsins 2019 voru kynnt í Háskólanum í Reykjavík síðasta laugardag. Hnakkaþon er útflutningskeppni sjávarútvegsins og er haldin árlega í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í ár var það liðið Coot – What a catch! sem sigraði í keppninni. Holy-haddock

Tillaga liðsins gengur út á að Icelandic Seafood, samstarfsfyritæki Hnakkaþons í ár, selji íslenskan fisk beint til ungra bandarískra neytenda undir eigin vörumerki, Coot, sem leggi áherslu á hreinleika, sjálfbærni og íslenskan uppruna.

Samkvæmt vinningstillögunni má sérsníða markaðsskilaboð og auglýsingar með aðstoð gervigreindar að smekk og þörfum hvers neytanda. Hópurinn benti sérstaklega á vænlegan markhóp í Seattle í Washingtonfylki, en þar sé mikið af ungu fólki með góðar tekjur sem sé reiðubúið að greiða hærra verð fyrir matvörur í háum gæðaflokki.

Sigurliðið skipa: Anton Björn Sigmarsson, nemi í hátækniverkfræði, Serge Nengali Kumakamba, meistaranemi í lögfræði, Gabríela Jóna Ólafsdóttir, nemi í tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein, Lísa Rán Arnórsdóttir rekstrarverkfræðinemi og Sólrún Ásta Björnsdóttir, tölvunarfræðinemi.

Hópur nemenda stendur með blómvendi í SólinniSigurliðið í Hnakkaþoni árið 2019.

Í Hnakkaþoni HR og SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Samstarfsfyrirtækið í ár var Iceland Seafood International sem selur, framleiðir og markaðssetur sjávarafurðir um allan heim. Nemendur þurftu að nýta þekkingu sína á markaðsmálum og áætlanagerð og setja fram áætlun um markaðssetningu á fiski til afmarkaðs neytendahóps að eigin vali og líta til framtíðar í lausnum sínum.

Liðin fengu verkefnið í hendur á fimmtudaginn og kynntu lausnir sínar fyrir dómnefnd á hádegi á laugardaginn. Dómnefndina skipuðu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International, Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo og Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR.

Sigurliðið mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.