Fréttir eftir árum


Fréttir

Löggjöf er varðar mannréttindi og skaðabótaskyldu á Norðurslóðum rædd í HR

15.1.2016

Radstefna_LD_jan2016

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, býður gesti velkomna.

Lög og reglur sem til staðar eru og varða nýtingu olíu og gass á Norðurskautinu voru ræddar á málstofu í Háskólanum í Reykjavík í gær, fimmtudag. Heiti málstofunnar var Olía og gas á Norðurskautinu: Ábyrgð og skyldur. Á svæðinu er talið að finnist mikið magn gass og stórar, ónýttar olíulindir. Málstofan var skipulögð af lagadeildum HR og HA með stuðningi frá sendiráði Kanada.

Nýting á þessum náttúruaðlindum, í viðkvæmu umhverfi Norðurskautsins, er annmörkum háð. Fræðimenn frá Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og háskólann í Calgary, Kanada, ræddu lög sem eiga við ef umhverfisspjöll verða á Norðurksauitnu vegna nýtingar auðlinda, eða ef íbúar landa sem liggja að svæðinu verða fyrir tjóni vegna slíkrar nýtingar. 

Málstofan hófst með því að Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, bauð gesti velkomna og Stewart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi, flutti ávarp. Sendiherrann ræddi meðal annars áherslur í nýrri ríkisstjórn Kanada í umhverfsimálum en meðal annars eru þær gegnsæi og aukin umræða. Hann sagði nýja ríkisstjórn, undir forystu nýs forsætisráðherra, ætla sér forystuhlutverk í baráttu við loftslagsbreytingar. Sem dæmi um þessa stefnu sagði hann breytingu á starfstitli umhverfisráðherra, sem nú er líka titlaður ráðherra loftslagsbreytinga. 

Radstefna_LD_jan20165

Rachael Lorna Johnstone, prófessor í lögfræði við HA og Háskólann á Grænlandi flutti því næst erindi sitt Hydrocarbon activities in the Arctic: Who pays if we get it wrong? Hún sagði Norðurskautið vera afar sérstakt landsvæði sem þarf að þjónusta á allt annan hátt en öðrum svæðum, til dæmis geti myrkrið hamlað björgunaraðgerðum ef olíuleki á sér stað. Hún fjallaði um mikilvægi þess að mannréttindalög séu skýr er varða íbúa Grænlands og Noregs sérstaklega þar sem olíuleki myndi koma sér illa fyrir þessi samfélög. 

Nigel Bankes, prófessor í náttúruauðlindarétti við Háskólann í Calgary í Kanada og aðjúnkt við lagadeild háskólans í Tromsö í Noregi og KG Jebsen miðstöðina í hafrétti í Tromsö flutti erindið Design considerations for a liability and financial assurance regime in domestic law. Bankes gerði að umræðuefni skaðabótaskyldu ríkja og stórfyrirtækja. Hann sagði þurfa að vera skýrari reglur um að sannað sé að nægt fjármagn sé til í starfseminni svo að hægt sé að mæta skakkaföllum. 

Að lokum flutti Bjarni Már Magnússon, lektor við lagadeild HR og Fulbright Arctic Initiative styrkþegi fyrirlestur sinn How can non-Arctic states defend the common heritage of mankind in the central Arctic Ocean? Bjarni greindi frá rannsóknum sínum í hafrétti og á þeim sjávarsvæðum sem ekki tilheyra ákveðnum löndum.

Niðurstöður fundarins voru meðal annars þær að greinilegt þykir að skerpa þurfi á löggjöf er varðar mannréttindi og skaðabótaskyldu ríkja og fyrirtækja. Það eru þó til ákveðnar bótareglur og sjónarmið til staðar vegna umhverfisskaða vegna nýtingar á kolvetni á Norðurskautinu.  

Fundarstjóri var Page Wilson, gestafræðimaður við lagadeild HR og lektor í alþjóðasamskiptum og lögfræði við Háskólann á Grænlandi.

Sjá myndir frá málstofunni á facebook-síðu HR