Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

LS Retail og HR vinna saman að rannsóknum í markaðsfræði og neytendasálfræði

1.11.2017

LS Retail og Háskólinn í Reykjavík munu vinna saman að rannsóknum á smásöluverslun innan rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði, samkvæmt nýjum samstarfssamningi.

Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR, stýrir rannsóknarsetri HR í markaðsfræði og neytendasálfræði en rannsóknir í verslunarumhverfi eru eitt af áherslusviðum setursins. „Umhverfi verslunarinnar er síbreytilegt og miklar breytingar hafa átt sér stað á hegðun neytenda sem meðal annars má rekja til stafrænna miðla.

Valdimar stendur upp við vegg í HR með krosslagða handleggiÞað er mikilvægt í rannsóknum á neytendahegðun að styðjast ekki eingöngu við sölugögn heldur skoða einnig hluti eins og ferðalag neytenda um verslunarrými og hegðun þeirra á meðan farið er um rýmið. Slíkar rannsóknir geta m.a. leitt til staðfestingar eða höfnunar á tilgátum og kenningum sem varða markaðssetningu og smásölu,“ segir Valdimar.

Hvernig mæta á auknum kröfum

Rannsóknirnar miða að því að greina hvernig hefðbundin smásala geti brugðist við nýrri tækni og sífellt auknum kröfum neytenda. Sem dæmi um breytt verslunarumhverfi nútímans má nefna nýlegar verslanir þar sem viðskiptavinir taka vörur úr hillum án þess að borga fyrir þær á staðnum.

Viðskiptavinir Málsins í HR velja sér matViðskiptavinir Málsins í HR þurfa ennþá að borga fyrir matinn á hefðbundinn máta.

Sérstök áhersla verður lögð á atferlisgreiningu, prófanir á nýjum tæknilausnum og rannsóknir á hegðun neytenda með nýrri tækni, til dæmis með greiningu á myndskeiðum af hegðun neytenda og augnskannatækni. Markmiðið er m.a. að hægt verði að spá með meiri vissu fyrir um áhrif markaðssetningar á hegðun neytenda.

Tilgangur og markmið rannsóknanna falla vel að starfsemi LS Retail en fyrirtækið þróar hugbúnað fyrir fyrirtæki í verslunar- og veitingarekstri. Hugbúnaðarlausnir þess eru notaðar í um 66.000 verslunum, veitingastöðum og bensínstöðvum í meira en 120 löndum. Viðskiptavinir eru stórir sem smáir og meðal þeirra er að finna fjölda heimsþekktra vörumerkja.