Fréttir eftir árum


Fréttir

Er hægt að koma í veg fyrir hugsanleg mistök vegna álags?

12.3.2019

Er hægt að setja mælistiku á það hvenær einstaklingar eru komnir að þeim þröskuldi álags að þeir geti ekki sinnt starfi sínu með fullnægjandi og ábyrgum hætti? Er þá hægt að koma í veg fyrir hugsanleg mistök sem kunna að stafa af álagi?

Eydís Huld Magnúsdóttir varði fyrir stuttu doktorsverkefni sitt frá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík en rannsókn hennar fjallaði um ofangreindar spurningar. Markmið rannsóknarinnar var að fylgjast með huglægu vinnuálagi hjá einstaklingum sem starfa í ábyrgðarmiklum störfum, s.s. flugumferðar- og flugstjórn, með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á jafnt árangur, líðan þeirra og síðast en ekki síst öryggi þeirra og öryggi almennings. 

Mögulegt að fylgjast betur með álagseinkennum

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að vel væri hægt að flokka einkenni álags, út frá tali sem og hjarta- og æðakerfi, í þrjá flokka með þeim aðferðum sem unnið var með í rannsókninni. Þá náðist sá merki áfangi í rannsókninni að unnt var að greina augljós einstaklingsbundin viðbrögð við álagi á milli hvíldarástands og verkefna sem kröfðust mikils huglægs vinnuálags.

Eydís Huld MagnúsdóttirEydís Huld Magnúsdóttir, doktor frá tækni- og verkfræðideild HR.

Með jákvæðar niðurstöður rannsóknarinnar að leiðarljósi er núna hægt að vinna áfram með þær til að þróa enn frekara eftirlitskerfi með ástandi hjá þeim starfsgreinum sem eru undirsettar verulegu álagi í daglegum störfum sínum. Er um að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar hér á landi sem og erlendis.

Hlaut styrki frá ISAVIA og Icelandair

Titill rannsóknarinnar er „Flokkun huglægs vinnuálags út frá lífeðlisfræðilegum einkennum fyrir vöktun á vinnuálagi“ (e. Cognitive workload classification with psychophysiological signals for monitoring in safety critical situations).

Leiðbeinandi rannsóknarinnar var dr. Jón Guðnason dósent við HR, ásamt meðleiðbeinendunum dr. Kamillu Rún Jóhannsdóttur lektor við HR og dr. Arnab Majumdar Reader hjá Imperial College í London. Rannsóknin var unnin í samstarfi og með tilstuðlan styrkja frá ISAVIA og Icelandair og í gegnum samstarf Háskólans í Reykjavík og Imperial College í London.

Eydís Huld lauk meistaraprófi í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014. Hún starfar nú við rannsóknir á þessu sviði við háskólann.