Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Magnús Már einn af heiðursmeðlimum Evrópusamtaka um fræðilega tölvunarfræði

1.4.2020

Dr. Magnús M. Halldórsson, tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, hefur verið valinn heiðursmeðlimur Evrópusamtaka um fræðilega tölvunarfræði (EATCS Fellows), og er hann einn af þremur sem voru valdir árið 2020.

Heiðurinn hlotnast Magnúsi vegna framlags hans til rannsókna á sviði reiknirita, sér í lagi nálgunaraðferða og reiknirita fyrir þráðlaus samskipti.

Skoðar hegðun þráðlausra neta

Móttaka skilaboða byggir á sendistyrk, umhverfissuði og truflunum frá öðrum samskiptum. Þetta er í raun sambærilegt við að í auðu herbergi þurfi ekki að tala hátt til að tal manns komist til skila, en í herbergi fullu af fólki, þar sem allir séu að spjalla saman, þurfi maður bæði að kalla og viðmælandinn að hlusta mjög vel, til að skilaboð komist til skila.

Í þráðlausum netum getur verið mikið af samskiptum í gangi í einu. Það þarf skilvirk reiknirit til að tryggja að allir geti talað á sama tíma og merki frá einum truflist ekki vegna merkja frá öðrum.

Stærðfræðin eins og innri íhugunMaður stendur á ganginum í HR

„Ég fór í tölvunarfræði á sínum tíma því ég hafði svo gaman af forritun. En svo komst ég að því að ég hafði í raun meira gaman að því að leysa stærðfræðilegar spurningar tengdar þeim verkefnum sem ég var að vinna við, en að vera í beinni forritun.

Vinur minn sagði mér einu sinni að hann gæti ekki hugsað sér að stunda ekki rannsóknir, því í þeim væri skapandi þáttur sem hann myndi sakna. Það eru kannski ekki margir sem tengja stærðfræði við skapandi greinar, en ég get tekið undir þetta.

Að búa til nýja þekkingu er svo skemmtilegt og gefandi. Að einbeita sér algjörlega að einhverri stærðfræðilegri spurningu, það má segja að það sé einskonar innri íhugun. Mér finnst mjög gott að hafa slíkar erfiðar spurningar til að glíma við.“

-Úr viðtali við Magnús Má í Tímariti HR árið 2015.

Rannsóknir í fræðilegri tölvunarfræði

Magnús Már er forstöðumaður Þekkingarseturs í fræðilegri tölvunarfræði (ICE-TCS) við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík sem heldur úti öflugum rannsóknum og reglulegum viðburðum.

Samtök fræðilegrar tölvunarfræði í Evrópu (EATCS) eru alþjóðleg vísindasamtök sem voru stofnuð árið 1972. Tilgangurinn var að búa til vettvang fyrir vísindafólk á þessu sviði og auka samvinnu fræðilegrar og hagnýtrar tölvunarfræði. Fræðileg tölvunarfræði er meðal áherslusviða tölvunarfræðideildar og hefur deildarforsetinn, dr. Luca Aceto, meðal annars sinnt formennsku í samtökunum.