Fréttir eftir árum


Fréttir

Laganemar tókust á í dómsal

23.2.2016

Kapparnir „July Thor“ og Bjössi „Buffet“ Bæringsson komu við sögu í árlegri málflutningskeppni Lögréttu, félags laganema við HR, sem haldin var síðasta föstudag. Þar kepptu nemendur í lögfræði sín á milli í málflutningi og dómarar voru þaulreyndir héraðs– og Hæstaréttardómarar. Þetta var í fimmta sinn sem keppnin var haldin, en hún fer fram í dómsal HR. Sá hluti keppninnar sem fram fór á föstudag var aðalmeðferð í málflutningskeppni félagsins en dómsuppsaga verður þann 25. febrúar nk.

Sterar og stympingar

Svokölluð málavaxtalýsing var birt föstudaginn 29. janúar sl. Þar segir af Júlíusi Þór, sem nýlega sigraði í alþjóðlegri vaxtarræktarkeppni, fyrstur Íslendinga. Hann ræður sig til starfa hjá Bjössa „Buffet” Bæringssyni, eiganda sportvöruverslunar í Reykjavík. Bjössi finnur sig knúinn til að veita Júlíusi fjölda áminninga fyrir óstundvísi og gefa honum tilmæli um að vera þjónustuliprari og kurteisari gagnvart viðskiptavinum. Grunur liggur á að Júlíus noti stera, og einn daginn þegar viðskiptavinur lætur orð falla um vaxtarlag hans kýlir Júlíus hann í andlitið. Ætla má að steranotkun Júlíusar hafi slæm áhrif á skap hans. 

Viðskiptavinurinn fellst á að gera ekki mál úr atvikinu. Júlíus lætur ýmis orð falla um búðina á samfélagsmiðlum, þar sem hann er með ótal marga fylgjendur. Næsta dag þegar hann mætir til vinnu segir Bjössi Júlíusi að hann megi aldrei framar stíga fæti inn í verslunina. Hann sé búinn að tala við Natan Óskarz stjörnulögfræðing sem muni senda honum stefnu vegna ærumeiðinga hans á samfélagsmiðlum í næstu viku

Stefnuhópur gætti hagsmuna Bjössa „Buffet“ í málinu, sem óskaði eftir því að gerðar væru ítrustu kröfur á hendur Júlíusi. Greinargerðarhópur gætti ítrustu hagsmuna Júlíusar í málinu gegn Bjössa.

Keppnin heppnaðist vel og eins og áður segir verður dómsuppsaga á morgun, fimmtudaginn 25. febrúar.