Fréttir eftir árum


Fréttir

Máltækni, ljósameðferðir, sýndarveruleiki og margt fleira í nýju Tímariti HR

26.11.2018

Tímarit Háskólans í Reykjavík er komið út. Í blaðinu er sagt frá rannsóknum kennara og nemenda við háskólann og áhugaverðum verkefnum sem unnin eru í samstarfi við atvinnulífið. Meðal þess sem fjallað er um í Tímariti HR í ár eru rannsóknir Heiðdísar Valdimarsdóttur, prófessors við sálfræðisvið, á ljósameðferð við þunglyndi og kvíða, hóp meistaranema sem stunda rannsóknir í máltækni undir forystu Hrafns Loftssonar, dósents við tölvunarfræðideild og greinar útskrifaða lögfræðinga sem skrifuðu um skaðabótarétt ásamt Guðmundi Sigurðssyni, prófessor við lagadeild.

Einnig er greint frá nýstárlegu verkefni þar sem nýr miðbær Djúpavogs er skoðaður í sýndarveruleika. Nemendur segja frá verkefnum sínum í atvinnulífinu og skólameistarar nokkurra framhaldsskóla lýsa reynslu sinni af styttingu náms til stúdentsprófs. Þetta er í tíunda sinn sem Tímarit HR kemur út.

Tímaritið er aðgengilegt á vefsíðu HR og er sent til núverandi og fyrrverandi nemenda háskólans og til starfsmanna. Blaðinu er einnig dreift á kaffihús og í ýmis almannarými eins og bókasöfn, verslanamiðstöðvar, sundlaugar og á fleiri staði.