Fréttir eftir árum


Fréttir

Mansal í vændi á Íslandi er algengt

12.2.2015

„Það er miklu meira vændi hér en meðaljóninn gerir sér grein fyrir. Erlendar konur eru sendar hingað í þeim eina tilgangi  að stunda vændi. Það er líka meiri eftirspurn eftir vændi heldur en framboð,“ segir Heiða Björk Vignisdóttir sem rannsakaði mansal á Íslandi við lagadeild HR.

Heiða Björk segir í viðtali við Fréttablaðið að vændi tengt mansali sé algengt hérlendis. Hún skrifaði meistararitgerð í lögfræði við lagadeild HR um tengsl vændis og mansals við skipulagða glæpastarfsemi hérlendis.

Heiða Björk segir augu almennings hafa opnast fyrir því á undanförnum árum að mansal sé til staðar hérlendis líkt og annars staðar. Bendir hún í því tilliti á nektardansstaðina sem starfræktir voru hér um árabil. Flestir voru staðirnir þrettán og í kringum aldamótin komu um þúsund erlendar konur hingað til lands til þess að dansa á þessum stöðum.

„Það er engin tilviljun að flestum þessum stöðum var lokað þegar einkadansinn var bannaður,“ segir Heiða.

Sönnunarstaðan erfið

Sakfellingartíðni er afar lág í þessum málum, hérlendis sem og erlendis. Um er að ræða flókin og margþætt mál.

„Sönnunarstaðan er erfið í þessum málum og vissulega ekkert hægt að hnika frá þeim kröfum sem gerðar eru til sönnunar í þessum málum frekar en öðrum. Fórnarlömbin taka yfirleitt ekki virkan þátt í því að upplýsa um málin af ýmsum ástæðum,“ segir Heiða. Í mörgum tilfellum hefur þeim verið hótað, þeim talin trú um að þau hafi einnig framið brot í landinu eða koma jafnvel frá löndum þar sem erfitt er að treysta lögreglunni.

„Það þarf mikið til þess að þessi mál fari alla leið á borð dómara. Hvað þá þegar fórnarlambið vill ekki viðurkenna að það sé fórnarlamb eða upplifir sig ekki þannig. Vill ekki segja frá og óttast um líf sitt, þá er lítið sem lögreglan getur gert.

Líkt og Fréttablaðið hefur fjallað um eru dæmi um það að mansalsfórnarlömb hafi verið dæmd og setið í fangelsi hérlendis vegna skjalafals. „Þau játa þá frekar á sig skjalafals, vegna falsaðra skilríkja, en vilja ekki segja frá öðru vegna ótta.“

Heiða Björk VignisdóttirHeiða Björk Vignisdóttir


Byggt á frétt Fréttablaðsins, 12. febrúar 2015.