Fréttir eftir árum


Fréttir

Marel og HR í samstarf

Samningur um rannsóknir og þróun til fimm ára

30.4.2018

Nemendur og sérfræðingar Háskólans í Reykjavík (HR) munu í samstarfi við  Marel vinna að rannsóknum og þróun á nýjum tæknibúnaði, hugbúnaði og fjölbreyttum lausnum fyrir matvælaiðnað, samkvæmt nýjum samstarfssamningi.

Samstarfið felur meðal annars í sér að Marel styrkir allt að fjögur nemendaverkefni í HR á ári. Nemendum gefst þannig kostur á að glíma við raunveruleg verkefni hjá hátæknifyrirtæki í fremstu röð, með stuðningi kennara við HR og starfsfólks Marel. Verkefnin geta verið af ýmsum toga en munu taka mið af stöðu Marel sem alþjóðlegs hátæknifyrirtækis sem er í fararbroddi í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað.

Hópur fólks stendur hlið við hlið og brosirFulltrúar Háskólans í Reykjavík og Marel við undirritun samningsins.

Aðili að Icelandic Innovation Partners

Marel gerist með samningnum einnig aðili að Icelandic Innovation Partners (IIP), sem er samstarf milli MIT háskólans í Bandaríkjunum, HR og valinna íslenskra fyrirtækja. Aðild að IIP veitir aðgang að sérfræðingum og námskeiðum MIT sem og aðgang að gagnagrunni nýsköpunarfyrirtækja sem hafa sprottið upp úr rannsóknum við MIT.

Fleiri tækifæri fyrir nemendur

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir samstarf við atvinnulífið vera eina af grunnstoðum Háskólans í Reykjavík.  „Með þessum samningi munu nemendur HR fá tækifæri til að kynnast viðfangsefnum og áskorunum Marel og öðlast reynslu í vinnu fyrir þekkingarfyrirtæki í fremstu röð. Slíkt samstarf við atvinnulífið styrkir enn frekar tækifæri nemenda HR til áhugaverðra starfa að loknu námi.“

Hugvitið haft í hávegum hjá Marel

Davíð Freyr Oddsson, yfirmaður mannauðssviðs Marel segir: „Marel fagnar um þessar mundir 35 ára afmæli sínu. Upprunalega var félagið sprotafyrirtæki stofnað af hugdjörfum háskólanemum sem með hugviti sínu og eldmóð vildu hámarka nýtingu, gæði og afköst í íslenskum sjávarútvegi. Það er staðföst stefna Marel að halda áfram sem endranær að skipa framvarðasveitina í framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir hinn ört vaxandi og spennandi matvælaiðnað. Með samstarfi við HR kemst Marel í enn betra samband við nemendur og háskólasamfélagið í heild sinni. Enn fremur mun samstarfið gera Marel kleift að fást við ýmis þróunarverkefni sem falla ekki endilega undir hefðbundna starfsemi en geta nýst fyrirtækinu til frekari verðmætasköpunar.“