Fréttir eftir árum


Fréttir

Nám við iðn- og tæknifræðideild mun vinsælla en áður

11.11.2020

„Við erum ekki að leggja áherslu á að allir þurfi að mennta sig meira, heldur að leiðin sé alltaf opin,“ sagði Lilja Björk Hauksdóttir, verkefnastjóri verkefnisins Háskólamenntun eftir iðnnám innan iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík í hádegisfyrirlestri í dag. Þar sagði Lilja frá framgangi þessa samstarfsverkefnis og þróun náms við deildina. 

Deildin orðin sú fjórða stærsta

Lilja Björk Hauksdóttir

Í máli Lilju kom fram að iðnmenntuðum nemendum við hefur fjölgað mikið eftir að sérstök iðn- og tæknifræðideild var stofnuð við háskólann fyrir rúmu ári. Hún er nú fjórða stærsta deild HR og með um fimm hundruð manns í námi í iðnfræði, tæknifræði og byggingafræði auk styttra náms í upplýsingatækni í mannvirkjagerð og rekstrarfræði. Kostir þessa náms eru meðal annars þeir að brautir hafa svokölluð atvinnutengd lokamarkmið, sem þýðir að nemendur hljóta í flestum tilvikum lögvernduð starfsheiti og eru fullbúnir til þátttöku í atvinnulífinu að námi loknu.

Verkefni um Háskólamenntun eftir iðnnám

Samstarf milli Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins, Tækniskólans, IÐUNNAR fræðsluseturs og Rafmenntar var kynnt vorið 2019. Markmið þess er að bæta flæði milli iðnnnáms og háskóla og að kortleggja, efla og kynna tækifæri á háskólanámi með atvinnutengd lokamarkmið eftir iðnnám og aðra starfsmenntun. 

Aukið samstarf við atvinnulífið

Eitt meginmarkmið verkefnisins er að efla enn frekar tengsl á milli háskólans og atvinnulífsins hvað varðar nám í iðn- og tæknifræði og skyldum greinum. Til þess er nú verið að skipa í fagráð sem munu verða ráðgefandi fyrir skipulagningu einstakra námsbrauta HR á þessu sviði. Í gegnum fagráðin gefst atvinnulífinu tækifæri til að koma sínum áherslum á framfæri og og kalla eftir því námsframboði sem mest þörf er á. Þá hófst í ágúst kennsla á tveimur nýjum, stuttum og hagnýtum námsbrautum við iðn- og tæknifræðideild: upplýsingatækni í mannvirkjagerð og rekstrarfræði.

Samræmi milli námsstiga

Meðal þess sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði er að rýna námsbrautir iðn- og tæknifræðideildar og bera þær saman við námsbrautir til sveinsprófs. Markmiðið er að tryggja að háskólanemar með iðnmenntun þurfi ekki að endurtaka námskeið sem þeir hafa þegar lokið í iðnnámi. 

Kennari stendur fyrir framan nemendur

Nemendur í staðarlotu í iðnfræði við iðn- og tæknifræðideild. 

Stöðupróf í tæknifræði

Þeir nemendur sem stefna á nám í tæknifræði en hafa ekki lokið tilskyldum einingafjölda í stærðfræði og eðlisfræði geta nú tekið stöðupróf í þeim greinum við háskólann. Prófunum er ætlað að koma til móts við umsækjendur sem uppfylla ekki inntökuskilyrði en telja sig hafa nægilegan grunn án þess að hafa lokið tilskyldum framhaldsskólaeiningum. Prófin voru haldin í fyrsta skipti síðastliðið sumar og hófu fimm nemendur nám í tæknifræði í haust sem nýttu sér þessa leið. Vinna við endurskipulagningu námsins er hafin og stefnt er að því að hefja kennslu samkvæmt breyttu skipulagi næsta haust.

Hluti iðnfræðináms nú metinn inn í tæknifræðinám

Iðnmeistarar sem hafa lokið A og B hluta iðnmeistaranáms við Tækniskólann geta nú fengið þrjú námskeið metin í nám í iðnfræði við háskólann. Þá eru ákveðin námskeið í IÐUNNI fræðslusetri nú metin inn í nám í iðnfræði. Loks geta útskrifaðir iðnfræðingar fengið allt að 41 einingu af námi sínu metna inn í nám í tæknifræði.