Mars-jeppi prófaður á Íslandi fyrir ferð til Mars árið 2020
Þessar vikurnar standa yfir í nágrenni Langjökuls prófanir í tengslum við svonefnt SAND-E verkefni sem kostað er af Bandarísku flug- og geimvísindastofnuninni, NASA. Megintilgangur verkefnisins er að prófa vél- og hugbúnað fyrir Mars-jeppa, sem nota á í leiðangri NASA til Mars árið 2020, við aðstæður sem líkjast aðstæðum á Mars.
Mars Rover kominn á áfangastað í nágrenni Langjökuls. Ljósmyndari: Robb Pritchard
Hópur nemenda í verkfræði og tæknifræði við Háskólann í Reykjavík hefur verið rannsóknateyminu til aðstoðar, m.a. við að finna heppilega staði til prófana, kanna rannsóknasvæðið með drónum og veita upplýsingar um einstakar jarðfræði- og veðurfarsaðstæður á Íslandi.
Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Trucks Experience sér um flutning teymisins á þá afskekktu staði þar sem prófanirnar fara fram, og útvegar farartæki og ýmiskonar búnað og þjónustu fyrir rannsóknirnar. Þá hefur fyrirtæki séð um öflun vista og útvegað gistingu til að dvöl teymisins sem annast prófanirnar verði sem þægilegust á þeim stöðum þar sem þær fara fram.
Tilgangur leiðangursins
Vísindamenn SAND-E verkefnisins hafa sérstakan áhuga á að fylgjast með breytingum á eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum jarðvegs þegar hann berst með vatni og vindum. Meðal annars þess vegna fara prófanir fram nærri jökulrönd Langjökuls, því þar er að finna farvegi í sandinum eftir vatn sem kemur undan jöklinum, sem minna á farvegi á Mars. Þar er einnig að finna vindbarið basalt-hraun. Sandurinn er basalt-sandur, líkur sandinum á Mars, sem fyrirfinnst óvíða utan Íslands.
Mars-jeppinn og hópur jarðfræðinga mælir og tekur sýni á þremur stöðum í mismikilli fjarlægð frá jökli. Gögnin og niðurstöður eru svo nýttar í sjálfstýringu Mars-jeppans sem nýtir vélnám og gervigreind til að meta umhverfið sem keyrt er um, bæði jarðfræði þess og hversu öruggt það sé fyrir bílinn.
SAND-E teymið gerir prófanirnar með ýmsum hætti og metur þannig hvaða aðferð er heppilegust til að safna upplýsingunum. Jeppinn verður látinn aka sjálfur og meta umhverfið án aðkomu manna en einnig verður kannaður vænleiki þess að nota dróna til að skanna svæðið sem fram undan er, líkt og til stendur að gera í leiðangri NASA til Mars á næsta ári.
Mars-jeppinn
Mars-jeppinn er hannaður af kanadíska fyrirtækinu Mission Control og stýra starfsmenn þess notkun hans og þróun hug- og vélbúnaðar fyrir verkefnið. Verkfræðingar nota einnig dróna til að búa til nákvæm kort af þeim stöðum sem notaðir eru við prófanirnar.
Margir koma að rannsókninni
Auk þeirra íslensku aðila sem að verkefninu koma, leggja hönd á plóg ýmsir sem búa yfir sértækri þekkingu á geimvísindum og náttúrurannsóknum. Þar má meðal annars nefna vísindamenn frá:
- Texas A&M University
- NASA Johnson Space Center
- Purdue University
- Harvard University
- MIT
- Stanford University